144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:55]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég verð að taka undir það með hv. þingmanni að markmiðin fyrir þessari breytingu eru helst til óljós fyrir þeim sem hér stendur sömuleiðis. Það má vera að þau komi skýrar fram í ferlinu en alla vega, miðað við umræðuna hingað til og greinargerðina, þykja mér þau ekki alveg nógu skýr.

Almennt er mín reynsla af sameiningum og breytingum á strúktúr í kerfinu, hvort sem er í viðskiptalífi eða í stjórnsýslu, sú að tvö grunnmarkmið liggi almennt fyrir. Það er annars vegar að laga eitthvað sem er í stórkostlegu ólagi, og það heyrist mér allir vera sammála um, líka hæstv. utanríkisráðherra, að sé ekki stóra vandamálið hér, og hins vegar hitt að bæta einhverju sérstaklega við, að gera vinnubrögðin miklu betri, að spara mikla fjármuni eða eitthvað í þeim dúr. Ég get því miður ekki séð nógu góð rök fyrir því að þetta eigi við annað hvort af þessu.

Varðandi fjölda landa þá hef ég ákveðnar áhyggjur af því að takmarka starfið við þrjú lönd. Þeim var fækkað fyrir ekki mörgum árum. Þrjú lönd eru eiginlega algert lágmark og auðvitað vildi ég sjá stórkostlega aukningu í framlögum til þróunarsamvinnu þannig að bæði sé hægt að styrkja starfið í löndunum og helst jafnvel fjölga þeim. En hins vegar tel ég að verkefnin, staðan eins og hún er nú, miðað við þá fjármuni sem eru settir í verkefnin, hafi alla vega skilað mjög góðum árangri.