144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:49]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að reyna að fara aðeins yfir þetta mál. Mér er frekar mikið niðri fyrir varðandi það og vona að ég komist hjá því að vaða mikið úr einu í annað en það gæti nú samt alveg orðið raunin.

Eins og komið hefur fram er ég afar ósátt við þetta mál og tel það ekki tímabært á svo mörgum forsendum sem hér hafa verið raktar að einhverju leyti í dag. Í fyrsta lagi tel ég að þetta hefði átt að fá að klárast með þeirri skýrslu sem beðið er eftir frá DAC og að verkefnið fengi að taka einhvern enda áður en farið væri að breyta fyrirkomulaginu.

Mig langar að byrja á því að vitna hér í skýrslu Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur sem gerð var 2008 þar sem segir, m.a., með leyfi forseta:

„Í munnlegri skýrslu til Alþingis hinn 8. nóvember sl. lýsti utanríkisráðherra því yfir að í ljósi þess að með auknum framlögum verði gerðar auknar kröfur um fagmennsku hefði ráðherra ákveðið að Ísland gerist aðili að þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD/DAC)“ — sem við höfum vitnað í hér. „Þar með fengi Ísland beinan aðgang að reynslu og upplýsingum sem nýtast við mótun stefnu í þróunarstarfi og við skipulagningu þróunarsamvinnunnar auk þess sem nefndin gerir úttekt á þróunarsamvinnu aðildarlandanna á fjögurra ára fresti. Aðild að nefndinni miðar því að því að tryggja gæði þróunarsamvinnunar og veitir mikilvægt faglegt aðhald.“

Þetta er það sem utanríkisráðherra hefur ekki tíma til að bíða eftir. DAC ætlar sem sagt að skila skýrslu á næsta ári og mér hefði fundist afar skynsamlegt að bíða eftir henni. Ég segi eins og sagt var rétt áðan, þetta getur varla verið forgangur, eða hvað býr þarna að baki þannig að það bráðliggi svona á þessu? Ég tel að ekki hafi verið færð fyrir því rök eða að búið sé að skipuleggja og skilgreina og setja hin ýmsu markmið sem segi að þetta verði allt saman skilvirkara. Alla vega hefur ekki verið sýnt fram á að allt verði skilvirkara og betra með því að færa ÞSSÍ inn í ráðuneytið. Þá er ég ekki að draga úr hæfni ráðuneytisfólksins eða þeirra sem þangað færu, til dæmis þeirra sem vinna hjá ÞSSÍ, heldur er það bara svo að ráðuneytið vinnur allt öðruvísi en svona stofnanir.

Mig langar að vitna áfram í skýrsluna á bls. 15. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sameining ÞSSÍ og hinnar marghliða þróunarsamvinnu innan ráðuneytisins myndi veikja faglega stefnumótun í þróunarsamvinnumálum. Slík sameining myndi draga úr möguleikum ráðuneytisins á að koma á innra aðhaldi við ákvarðanatöku og þar með styrkja hina faglegu stefnumótun.“

Svo kemur hérna síðar:

„Í fyrsta lagi má ná fram heildstæðu stjórnunarferli innan stofnunarinnar þar sem lögð er áhersla á faglegan undirbúning og markvissa stjórnun einstakra afmarkaðra viðfangsefna sem fylgt er eftir með innra eftirliti og óháðum úttektum. Í öðru lagi má ná fram fagþróun með samþjöppun þekkingar og reynslu af framkvæmd tvíhliða samvinnu, þ.m.t. þekking og reynsla af störfum við aðstæður á vettvangi þróunarlanda. Í þriðja lagi má koma á faglegu aðhaldi með framkvæmd tvíhliða þróunarsamvinnu innan ráðuneytisins, aðhaldi sem ekki kemur beint að hinni daglegu framkvæmd.“

Síðar segir: „Á sama hátt og pólitískt innra aðhald alþjóða- og öryggissviðs getur styrkt undirbúningsvinnu og diplómatíska vitund við framkvæmd þróunarsamvinnu og friðargæslu á þróunarsamvinnusviðinu þá getur faglegt innra aðhald innan utanríkisráðuneytisins styrkt fagþróun bæði innan ÞSSÍ og þróunarsamvinnusviðs ráðuneytisins.“

Þessi skýrsla virðist ekki hafa fengið neina athygli þegar ráðherrann ákvað að leggja fram frumvarp sitt og er einungis tekið mark á skýrslu Þóris Guðmundssonar, sem er ágæt að mörgu leyti eins og skýrslur eru gjarnan, manni hugnast sumt og annað ekki. Mér hugnast ekki að lögð sé til nánast ein leið og mér finnst hún hafa verið fyrir fram gefin. Ég ætla ekki að fullyrða að svo hafi verið en ég upplifi það þó pínulítið þannig.

Mér fannst líka áhugavert að lesa pistil sem birtist í dag á fréttasíðu þar sem fram kom að í tíð Davíðs Oddssonar sem utanríkisráðherra barðist hann gegn þeim sem vildu þá koma ÞSSÍ inn í ráðuneytið og vildi frekar auka verkefni þeirra, sem ég mundi líka vilja sjá frekar en hitt. Davíð lagði reyndar til að bæði marghliða og tvíhliða þróunarsamvinna yrði flutt yfir í Þróunarsamvinnustofnun. Það sem kemur mér á óvart er að hann lét semja reglugerð sem ráðuneytisstjórinn neitaði að skrifa undir og líka staðgengill ráðuneytisstjórans, en það var Sigríður Snævarr, þáverandi sendiherra, sem fékkst til að undirrita. Þó kemur fram að ráðuneytisstjórinn hefði sagt að þetta yrði aldrei virt. Það vekur mig til umhugsunar um hver ráði för. Hver er það sem vill virkilega þessa framkvæmd? Eru það embættismennirnir eða er það virkilega vilji ríkisstjórnar á hverjum tíma? Og er það í lagi að embættismenn leyfi sér svona framkomu? Þessi reglugerð var í fullu gildi í nokkur ár en henni var aldrei fylgt. Mér finnst mjög athyglisvert að þetta hafi komið upp.

Það er margt sem ég gæti talað um og það hefur svo sem aðeins komið fram í dag. Mér fannst áhugavert þegar því var velt upp að við skiptum um stofnanir og settum inn aðrar stofnanir á vegum ríkisins í staðinn fyrir Þróunarsamvinnustofnun og veltum því fyrir okkur hvort við gætum hugsað okkur að taka þær inn í ráðuneytið. Það er ekkert sem mælir gegn því.

Ég hef áhyggjur af því að þegar ákvarðanatakan færist fjær vettvangi og inn í ráðuneytið, þótt fólk verði auðvitað staðsett á vettvangi, ég held ekki öðru fram, verði allt þyngra í vöfum og ákvörðunarferlið taki lengri tíma. Við vitum að í þróunarsamvinnu getur oft þurft að leysa mál með hraði.

Ráðuneyti sýna ekki beinlínis fram á árangur starfa sinna og verka með mælanlegum hætti. Ráðherra hefur sagt að hann ætli að fela þetta verkefni væntanlega utanaðkomandi aðila, það hlýtur að vera þannig ef það á að vera sannfærandi fyrir þá sem að þessu standa. En mér finnst að ráðuneytið eigi að hafa stefnumörkunarþáttinn og eftirlitið á sínum snærum en að stofnun eins og Þróunarsamvinnustofnun eigi að sjá um framkvæmdir.

Ég hef áður sagt í andsvörum að ég hef áhyggjur varðandi það fátæka fólk sem við erum að vinna fyrir og með, að ekki muni verða lögð jafn mikil áhersla og núna, sem hefur komið vel fram í könnunum, á að við séum að gæta þessa fólks á forsendum þess en ekki á forsendum okkar Íslendinga. Ég hef áhuga á því að vita hvort hæstv. ráðherra geti séð það fyrir sér með öðrum hætti, þ.e. að útvista frekar öllum tvíhliða verkefnum til ÞSSÍ, sem er hluti af verkefnunum og stór hluti er í ráðuneytinu. Ef við horfum til Sida í Svíþjóð þá er sú stofnun þekkt fyrir mikil gæði í þróunarstarfi og ég held að það sé nokkuð sem við ættum að leggja meiri áherslu á.

Ég hef líka áhyggjur af þeirri hugmyndafræði sem hér birtist um fækkun landa. Nú hefur þeim fækkað úr sex í þrjú, þ.e. þau sem eru á vegum Þróunarsamvinnustofnunar. Við erum ekki lengur með starfsemi í Namibíu, Srí Lanka og Níkaragva og ef land lokast einhverra hluta vegna erum við bara með eitt land. Það held ég að geti verið of lítið til dæmis varðandi starfsmenn og annað slíkt, þá nýtast kraftarnir ekki til fullnustu.

Það er líka talað um að stofna sendiráð í Addis Ababa eða Naíróbí. Er þörf á því? Er það brýnasta verkefnið? Mér finnst það ekki. Ég tel að við eigum að einbeita okkur enn frekar að löndum eins og Nígeríu eða einhverjum sem eru minni en þau sem við höfum, eins og ábendingar hafa komið fram um, eins og til dæmis Mósambík, sem er mjög stórt land. Þó að við höfum verið að gera mjög góða hluti þar ættum við frekar horfa á ábendingar frá DAC varðandi það hvaða löndum við sinnum nú þegar frekar en að fækka þeim. Ég held að þau geti ekki verð mikið færri en þrjú.

Mig langar að fara aðeins ofan athugasemdir Þróunarsamvinnustofnunar við skýrsluna af því að mér finnst nánast ekkert af því hafa verið tekið inn í þessa vinnu. Ég er sammála því að rannsóknarspurninguna vanti og að þetta sé allt frekar yfirborðskennt er varðar árangursmarkmiðið, þ.e. hvernig markmiðum skuli náð í ljósi þeirra tillagna sem lagðar eru fram og það kom ekki fram í ræðu ráðherrans. Það vantar tengingu hugmynda við þróunarmarkmiðin, hún er ekki nægjanlega skýr.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns er bara þriggja ára reynsla komin á þessa framkvæmd og í sjálfu sér er ekki komin fram nein röksemd fyrir því af hverju við eigum ekki að halda áfram á sömu braut, af hverju við getum ekki beðið eftir skýrslum um málið.

Ég hef líka áhyggjur af því að stefnumörkunin fari aftur á byrjunarreit og að of mikið púður fari í að endurskipuleggja allt starfið í ráðuneytinu í staðinn fyrir að nýta þekkinguna og alla þá reynslu sem þó er fyrir hendi til að vinna enn betra starf og nýta enn betur þá fjármuni sem hér eru lagðir til. Mér finnst ekkert hafa komið fram í skýrslunni sem ýtir undir að betri árangur náist með því að gera þetta með þessum hætti eða að það bæti frammistöðu okkar á einn eða neinn hátt. Ég tek undir þau sjónarmið að við verðum ekki endilega betri við þessa breytingu. Það er alla vega ekkert sem styður það.

Ég er ánægð yfir því að búið sé að óska eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á stjórnsýsluþætti þessa máls en ég tek undir það sem fram kom fyrr í dag að það er súrt að geta ekki beðið eftir henni, að það sé svo áríðandi að ræða þetta mál í dag að ekkert annað komist að. En það verður þá tekið inn í vinnu nefndarinnar í framhaldinu. En ég tek undir það sem fram kemur að flutningurinn á framkvæmd þessarar tvíhliða þróunarsamvinnu í ráðuneytin verði ekki endilega til að auka faglega dýpt. Það skín líka í gegn að það sé vandamál ef sérfræðiþekking í stofnuninni er meiri en í ráðuneytinu. Mér finnst það alveg frábært og það er auðvitað það sem við viljum sjá, að fólkið okkar sem starfar úti í stofnununum sé með mikla faglega þekkingu.

Ef við berum saman þær röksemdir sem fram koma í skýrslunni á bls. 43 um Þróunarsamvinnustofnun, sem hér er undirliggjandi, fyrir því að starfsemi ÞSSÍ færist á eina hendi í utanríkisráðuneytinu, við þær ráðleggingar sem DAC hefur lagt fram, tólf talsins, um stjórnkerfi þróunarsamvinnu, varðandi áherslu á skýra verkaskiptingu og árangursmiðaðan starfsanda, sem kemur fram á bls. 38, er ljóst að þær röksemdir fara ekki í sömu átt. Það má svo sem segja að skýrslan dragi þá fram að staðbundnar hugmyndir og alþjóðleg viðmið geti stangast á þannig að ég held að við þurfum að hafa okkur öll við og rýna þetta mjög vel því að það þarf að skýra stefnumótunina og framkvæmdina mun betur en hér er gert.

Ég er rétt að hitna en ég fæ vonandi tækifæri til að tala meira um málið.