144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[20:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni og niðurstöðum hans í andsvörum við mig að snyrtilegast væri auðvitað að draga málið bara til baka. Þetta er ekki gott mál og ástæðulaust að efna til ófriðar í því. Það er ekkert sem liggur á. Það er ekkert að, það hefur hvergi komið fram að eitthvert sérstakt vandamál sé uppi og ef þetta snýst ekki beinlínis um að uppfylla einhverja drauma um að fækka ríkisstofnunum þá er þetta eiginlega algerlega óskiljanlegt. Ég minnist ekki einu sinni að þetta sé á þó nokkuð hugmyndaríkum lista hagræðingarhópsins um möguleika í þeim efnum enda felur þetta væntanlega ekki í sér neina hagræðingu í hefðbundnum skilningi. Það væri auðvitað hreinlegast að draga málið til baka. Við í stjórnarandstöðunni höfum þó rætt að full ástæða sé til að kanna tiltekin mál. Við höfum óskað eftir aðkomu Ríkisendurskoðunar og svo liggur líka mjög ítarleg skýrslubeiðni fyrir þinginu og hvort tveggja hlýtur að vera af þeirri stærðargráðu og þeirri vigt að þingið taki það til skoðunar og meðferðar, jafnhliða afgreiðslu og umfjöllun málsins í utanríkismálanefnd.

Hæstv. ráðherra hlýtur að taka þetta til umhugsunar, að hann telji boðlegt að koma með málið svona vanbúið og vanreifað til þingsins og ekki síst þá staðreynd sem hér hefur verið dregin fram að greinargerðin er nokkuð þrungin dylgjum. Það er náttúrlega eitthvað sem stofnanir eiga ekki að þurfa að sitja undir af hendi ráðherra nema fyrir því séu rök og það sé fótur fyrir því að setja slíkt fram því þetta er ekkert annað. Og nýt ég nú minnar málfræðimenntunar sem gerist leiðinlega sjaldan í ræðustóli Alþingis því að hæstv. ráðherra segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Með því að færa starfsemi ÞSSÍ inn í ráðuneytið er verið að tryggja að öll samskipti við erlend ríki og stofnanir á sviði þróunarsamvinnu séu samstillt og í takt við utanríkisstefnu Íslands, auk þess sem íslensk stjórnvöld tali þá einni röddu um þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi.“

Með því að setja þetta fram með þessum hætti má ekki aðeins gagnálykta heldur er beinlínis gefið mjög afgerandi í skyn að Þróunarsamvinnustofnun Íslands sé ekki í takt við utanríkisstefnu Íslands og að íslensk stjórnvöld tali ekki einni röddu um þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi á meðan Þróunarsamvinnustofnun Íslands er við lýði.

Síðan segir í framhaldinu að breytt landslag á heimsvísu kalli á breytta nálgun í þróunarsamvinnu og síðan er það listað upp en engin rök færð fyrir því að Þróunarsamvinnustofnun Íslands eins og henni er skipað akkúrat núna geti ekki fangað þær breytingar og komið þeim í verk eins og öllu öðru sem hún hefur sinnt. Það er ekkert í hendi sem sýnir eða gefur í skyn á nokkurn annan hátt að Þróunarsamvinnustofnun Íslands standi ekki vel að verki með öll þau verkefni sem hún hefur með höndum og henni er falið samkvæmt lögum. Það er ekki við hæfi að hæstv. ráðherra leggi þetta fram og sýni með dylgjum sínum bæði vantraust á eigin stofnun og í raun og veru þann skilning að eina leiðin til að ríkisstofnun fylgi stefnu stjórnvalda í málaflokki sé að beita þurfi hana því agavaldi að þvinga verkefnin inn í ráðuneytin. Við hljótum að vera mjög hugsi vegna þess að reifanir Þóris Guðmundssonar í skýrslunni um nákvæmlega þennan þátt er mjög almennar, um að stefnu stjórnvalda sé betur borgið í ráðuneytum en í stofnunum. Hvað eigum við að segja þá um Umhverfisstofnun eða Skipulagsstofnun, stofnanir sem standa mér mjög nærri sem fyrrverandi umhverfisráðherra? Hvernig sjá menn „hættuna“ á því að menn tali ekki einum rómi í umhverfismálum eða skipulagsmálum eða í hverjum öðrum þeim málaflokki sem við höfum falið stjórnsýslunni eða stofnunum ríkisins að sinna?

Svo er önnur saga og hún er sú að ríkisstjórnin vinnur í tvær áttir hvað þetta varðar. Á einum stað er verið að færa verkefni út úr ráðuneytum, tiltekin stjórnsýsluverkefni, eins og til að mynda úr menntamálaráðuneytinu inn í Menntamálastofnun, ætlað er að færa verkefni sem áður voru staðsett í ráðuneytinu til nýrrar Menntamálastofnunar, meðan í þessu frumvarpi er unnið í hina áttina. Það er engin heildarsýn á það hvernig við viljum haga ásýnd og meginuppbyggingu íslenska Stjórnarráðsins. Viljum við hafa lítil ráðuneyti og sterkar stofnanir eða viljum við hafa stór og öflug ráðuneyti og litlar stofnanir? Sú umræða hefur aldrei verið tekin heldur er þingið að fjalla um einhverja óskilgreinda bendu af þingmálum sem kemur frá hinum og þessum ráðherrum og vísa í ólíkar áttir. Af hverju er það? Af því að það er engin verkstjórn, það er engin yfirsýn, það er af því að borðsendinn í Stjórnarráðinu er á pörtum ekki sérstaklega vel á vaktinni. Það er þess vegna. Við erum með fjöldamörg mál sem varða umgengni ferðamanna við Ísland, náttúruvernd, raflínur, rammaáætlun, innviðafrumvarp, gjaldtökufrumvarp o.s.frv. og þetta vinnum við allt með í tveimur ólíkum þingnefndum og það er engin heildarsýn. Hvert málið á fætur öðru er þannig að það er ekki partur af heildarhugsun um það á hvaða leið við erum. Þetta er tilviljunarkennt, þetta er sett fram nánast eins og til að geta merkt á þingmálaskránni að maður hafi lagt mál fram.

Af hverju velur hæstv. ráðherra það að byggja ekki á þeirri góðu, pólitísku samstöðu sem hefur ríkt í þessum málaflokki? Við höfum verið að vitna í, og ég held að við ættum að lesa hana einu sinni á dag, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Þetta var eftirminnilegur dagur á Laugarvatni þar sem þeir voru býsna mikið kátari piltarnir en þeir eru núna að jafnaði. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið. Framfarir og bætt lífskjör á Íslandi hafa byggst á samvinnu og samheldni og til framtíðar munu Íslendingar halda áfram að leysa sameiginlega af hendi helstu verkefni þjóðfélagsins.“

Ég lýsi eftir þeim þingmálum sem sett hafa verið fram í anda þessarar stefnu því sannarlega er það ekki þetta þingmál sem hér er til umfjöllunar. Það er ekki bara vanreifað með dylgjum í greinargerð, það er líka ófriðarmál vegna þess að ráðherrann hefur ekki einu sinni freistað þess að ná þverpólitískri nálgun eða þverpólitískri vinnu eða umræðu eða uppfærslu í því að setja málið fram. Það er með öllu óásættanlegt.

Við höfum rætt hér um mikilvægi þess að Þróunarsamvinnustofnun rétt eins og aðrar stofnanir samfélagsins geti notið þess að búa við faglegt sjálfstæði í einhverjum skilningi og það er sannarlega ákveðin togstreita sem allar ríkisstjórnir og ríkisstofnanir þurfa glíma við. Það er annars vegar þörfin fyrir pólitíska stefnumörkun og að hennar sjáist staður í framkvæmd stofnana og hins vegar fjarlægð frá pólitíkinni sem skapar stöðugleika í stefnu milli ríkisstjórna, stefnu sem lifir af kosningar. Sem sagt, sú nálgun að við séum ekki í kollsteypustjórnmálum íslensks veruleika þar sem ný ríkisstjórn kemur og hendir fjárfestingaráætlun, hendir sóknaráætlun og hendir grænu hagkerfi og hendir öllu sem þau gerðu af því að þau tilheyra öðrum meiri hluta. Það er varhugavert ef við erum komin með þá nálgun í svo viðkvæmum málaflokki, sem við höfum enga ástæðu til annars en ætla að sé markmiðið með það sem við höfum horft á í verkum núverandi ríkisstjórnar, að þetta snúist um að herða pólitísk tök og auka möguleikana á því að pólitíkin geti kúvent, geti gerbreytt, geti snúið baki við þverpólitískri vinnu. Það er töluvert mikið í húfi vegna þess að það sem er líka í húfi í svona málaflokki er nefnilega sáttin við almenning og sáttin við þá sem best þekkja til í geiranum, ekki einhvern einn eins og Þórir Guðmundsson segir sjálfur, munum að þetta er sjónarhorn Rauða krossins, munum að við þurfum að horfa á fleiri sjónarhorn. Það sem er í húfi er einmitt það sem kemur fram í stefnuyfirlýsingunni, það ríður á að byggja á samvinnu og samheldni til framtíðar. Það er það sem skiptir máli og það er í húfi og það setur hæstv. ráðherra í hættu með frumvarpinu vegna þess að þróunarsamvinnumál varða ekki bara okkur hér á þingi. Þau varða skilninginn á því hvað það er að vera Íslendingur í samfélagi þjóðanna. Það skiptir máli fyrir sjálfsmynd okkar hvernig þátt við tökum í þróunarsamvinnu og það er ekki eitthvað sem við leiðum til lykta með kosningum á fjögurra ára fresti. Það er sáttmáli sem á miklu dýpri rætur í þjóðarsálinni en svo að hægt sé að afgreiða það með þeim hætti. Þess vegna getur hæstv. ráðherra ekki með réttu lagt fram mál sem setur þann skilning íslensks samfélags í uppnám eins og hann gerir hér.

Virðulegur forseti. Að lokum langar mig að nefna þá staðreynd að ef þróunarsamvinna færist að öllu leyti undir ráðuneytið erum við auðvitað komin með þá stöðu eins og bent hefur verið á í umræðunni að ráðuneytið þarf að hafa eftirlit með sjálfu sér, ef eitthvert eftirlit á að vera með framkvæmd þróunarsamvinnu. Ef einhvers staðar er þörf á því að eftirlitsaðilinn sé aðskilinn frá framkvæmdaaðilunum er það í máli þar sem þeir sem njóta ákvarðana stjórnvalda eru svo langt í burtu að rödd þeirra heyrist ekki við borð þeirra sem taka ákvarðanir. Þess vegna þarf að vera skýr aðskilnaður milli framkvæmdarinnar og eftirlitsaðilans, annað er óásættanlegt. Í öðrum ákvörðunum sem við vinnum að í samfélaginu og nægir að nefna skipulagsmál, starfsleyfi, mengunarmál o.s.frv., er hagsmunaaðilinn nálægt þeim sem ákvörðunina tekur og hefur skýrar og skilgreindar leiðir til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þarna er það ekki svo. Þess vegna þurfum við að fara enn gætilegar í þessu efni en almennt gerist og gengur og hér óttast ég að við séum eina ferðina enn ekki bara með vont mál og illa undirbyggt heldur mál sem færir okkur aftur á bak í tíma, ekki inn í framtíðina og þá þróun sem við þurfum að sjá í þessum málaflokki. Fyrst og fremst segi ég að þetta mál á að draga til baka og hæstv. ráðherra á að vinna það í þverpólitískri sátt, í þverpólitískri vinnu. Við höfum nógan tíma til að gera það, við eigum að bíða eftir skýrslunni 2016 og bíða eftir þeim eftirlitsaðilum og þeim sem best þekkja til til að komast að sem bestri niðurstöðu í svona dýrmætum og mikilvægum málaflokki.