144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[20:57]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og tek undir með henni í mörgu. Ég hef það mottó að reyna að vera jákvæð gagnvart þeim málum sem ríkisstjórnin kemur með og þó að flutningsmaður sé framsóknarmaður læt ég það ekki slá mig út af laginu. Ég vil vera jákvæð og opin gagnvart málum og það mætti kannski alveg selja mér þetta ef rökstuðningurinn væri betri. Það getur vel verið að það sé hagræði í því að hafa starfsmenn sem sinna þessum málum öllum á sama stað. Maður getur líka spurt sig hvort það væri góð hugmynd að flytja utanríkisráðuneytið yfir í stofnunina.

Ef ég les greinargerðina er margt sem stingur í augu, eins og á bls. 8. Þar segir, með leyfi forseta:

„Einfaldara og markvissara skipulag eykur líkur á að markmið og áherslur Íslands á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu nái fram að ganga og skili sér í skilvirkari þróunarsamvinnu.“

Þá finnst mér verið að ýja að því að hún sé ekki skilvirk eins og staðan er í dag og að markmiðunum sé ekki fyllilega náð. Einnig segir:

„Með breytingunum næst betri heildarsýn á málaflokkinn og betur verður tryggt að stefnu Íslands í málaflokknum sé framfylgt.“

Er henni þá ekki nægilega vel framfylgt í dag? Jafnframt kemur fram:

„Auðveldara verður að móta og framfylgja áherslum Íslands“ — það hafa þá sem sagt verið einhver vanhöld á því, ef ég skil rétt — „og aukin tækifæri skapast til að hrinda stefnu Íslands í málaflokknum í framkvæmd með markvissari hætti.“

Það hefur þá ekki verið gert með markvissum hætti. Ef það er raunveruleg afstaða hæstv. ráðherra mundi ég vilja fá dæmi um það. Þess vegna held ég að það sé svo mikilvægt að bíða eftir skýrslum og úttektum. Hvað segir hv. þingmaður um það af því að þetta er dálítið getgátulegt, svo ég orði þannig.