144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það var til nokkurs að hefja umræðu um fundarstjórn forseta — og sjá, hér birtist hv. þm. Birgir Ármannsson. Ég vil bjóða hann velkominn í þingsal því að það er beinlínis þannig að samkvæmt 65. gr. þingskapa er þingmönnum skylt að sækja þingfundi nema nauðsyn banni. Það er gott að sjá að hv. formaður utanríkismálanefndar telur málið nægilega brýnt til að sitja hér við umræðuna. En hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á málinu? Er ekki kominn tími til að hv. þingmaður setji sig á mælendaskrá og taki þátt í umræðunni? Okkur öllum til upprifjunar, og sérstaklega stjórnarmeirihlutanum, er það þannig að þegar hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir máli fer það til þingsins. Það fer til þingnefndar. Hv. utanríkismálanefnd er falið að fara með málið. Þess vegna er það ekki aðeins skynsamlegt heldur eina vitið að hv. þm. Birgir Ármannsson láti svo lítið að taka þátt í umræðu um kost og kannski miklu frekar löst á þessu þingmáli hæstv. ráðherra.