149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki beint hvort þetta kæmi til með að bitna t.d. á almenningi, hvort skorið yrði niður í velferðarþjónustu o.s.frv. Ég held að mjög mikilvægt sé að fá það fram.

Mig langar aðeins að koma inn á það sem hæstv. ráðherra sagði varðandi hagspána sem stuðst er við. Vissulega er hún ný. Hún er síðan í janúar eða febrúar og sjálfsagt gott mál að styðjast við svo nýja spá.

En það eru fleiri spár og ég held að það sé rétt að nefna þær hér, t.d. bæði frá Landsbankanum og einkafyrirtækinu Reykjavik Economics. Þessar spár gefa upp töluvert dekkri mynd en spá Hagstofunnar. Því má spyrja hvort ekki sé eðlilegt að menn og stjórnvöld skoði þær spár einnig, vegna þess að þær draga upp dekkri mynd og mikilvægt er að menn skoði allt sviðið í þessum efnum.