149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:13]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það er vissulega hrósvert að hér sé farið út í fráviksgreiningar. Og það er einmitt frávikasviðsmynd á bls. 58 sem gerð er grein fyrir í fjármálaáætluninni. Þar má eiginlega segja að sá efnahagslegi veruleiki sem mér sýnist vera að teiknast hér upp sé metinn til fjár. Þar kemur á daginn að gangi það t.d. eftir að engin loðna verði, sem hefur raungerst nú þegar, að farþegafækkun um Keflavíkurflugvöll verði kannski heldur meiri en upprunalega var gert ráð fyrir — og eru þá allar vonir áfram bundnar við að það takist að róa þann lífróður sem félagið rær nú — kann afkoma ríkissjóðs að verða allt að 60 milljörðum lakari undir lok þessarar fjármálastefnu en ráð er fyrir gert.

Með öðrum orðum, þessi frávikasviðsmynd sýnir, af því að þetta er hinn efnahagslegi veruleiki sem blasir við okkur, að efnahagslegar forsendur þessarar fjármálaáætlunar eru þegar brostnar. Það er ágætt að muna (Forseti hringir.) gildi laganna um opinber fjármál; varfærni, sjálfbærni (Forseti hringir.) og festa. (Forseti hringir.) Það er engin varfærni í þessari fjármálaáætlun. (Forseti hringir.) Hún er fallin við birtingu.