149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú held ég að hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir hafi stórkostlega misskilið ræðu mína. Það sem ég fór með yfir hér áðan var að í ríkisfjármálaáætluninni stendur skýrum stöfum að ef launahækkanir ríkisstarfsmanna fara umfram hálft prósent plús verðlag þá þurfi ráðuneytin að finna leiðir til að bera þann kostnað. Ég nefndi það aldrei einu orði að það ætti ekki að borga þeim launin. Það er bara algjört rugl, leyfi ég mér að segja, herra forseti, í hv. þingmanni.

Það sem ég er að gagnrýna er að búið er að byggja inn aðhaldskröfu sem við vitum ekki hvað verður mikil, en þó vitum við að hvert prósentustig kostar 2 milljarða kr. Verði launahækkanir hjá stóru kvennastéttunum hjá ríkinu t.d. 5,8% þurfa ráðuneytin að finna hvar á að taka þá 4 milljarða sem kostnaðurinn verður. Auðvitað munum við borga launin. En hvað myndi það þýða? Hvað mun það þýða fyrir heilbrigðisstofnanirnar, fyrir sóknina í heilbrigðismálum sem nauðsynlegt er og lofað hefur verið að fara í? Hvað mun þetta þýða fyrir álag á heilbrigðisstofnanirnar sem er mjög mikið úti um allt land?

Og er undarlegt, herra forseti, að menn spyrji þessara spurninga og menn kalli eftir einhvers konar áætlun og einhvers konar svörum um hvernig eigi að bregðast við? Þetta leyniaðhald sem er búið að setja þarna inn, sem hljómar svona sakleysislega, getur valdið miklum búsifjum og það kemur niður á þeim sem þurfa á þjónustu (Forseti hringir.) ríkisins að halda. Það er óþolandi.