149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:52]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hv. þingmaður er reynslumikill úr starfi fjárlaganefndar og hefur raunar setið þar í gegnum mótun þeirra reglna sem við erum að vinna eftir og þekkir kannski betur en við flest hugsunin þar að baki. Þess vegna velti ég fyrir mér, eins og hv. þingmaður kom aðeins inn á í ræðu sinni, þeim skilyrðum sem þyrftu að vera fyrir hendi til að endurskoða fjármálastefnu. Hvað að mati hv. þingmanns þyrfti í raun á að ganga í efnahagslífinu til að við værum komin að þeim mörkum að ríkisstjórn eða þinginu væri stætt á því að endurskoða fjármálastefnuna frá grunni. Henni er jú ætlað að vera ákveðin kjölfesta í ríkisfjármálunum í gegnum heilt kjörtímabil. Ég hefði áhuga á að heyra sjónarmið hv. þingmanns þar.