149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég minni á að við erum hér að tala um fimm ára áætlun, fjármálaáætlun sem er stefna ríkisstjórnarinnar til næstu ára. Í því samhengi vil ég spyrja: Hver er stefna stjórnvalda varðandi veggjöld? Þingið var dregið í gegnum veggjaldaumræðu undir lok síðasta árs og í byrjun þessa árs þar sem stefndi í að fram kæmi frumvarp til þingsins í mars og yrði klárað. En ekkert bólar á því.

Í þessari fjármálaáætlun er ekkert talað um veggjöld, nema hvað á bls. 14 segir, með leyfi forseta:

„Einnig má taka upp notendagjöld fyrir afnot nýrra innviða.“

Sem má kannski skilja sem svo að þar sé um samgöngur að ræða.

Ég get ómögulega áttað mig á því hvort hér sé um að ræða stefnumótun eða ekki. Hérna erum við að ræða fimm ára fjármálaáætlun þar sem setja á fram stefnu stjórnvalda. Mig langar að fá skýrt svar. Búið er að draga þingið einu sinni í gegnum þetta veggjaldamál, en eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra áðan var ekki verið að tala um fjármögnun samgangna til framtíðar. Þá var sérstaklega verið að tala um fjármögnun ákveðinna verkefna. Fram kom í máli ráðherra áðan að það mál sem hér var rætt í kringum áramótin hafði ekkert snúist um framtíðarfjármögnun, það var ekki alls ekki málið. Það var mjög mikill misskilningur hvað það varðar hjá einmitt umsagnaraðilum, bara til að hafa það algjörlega á hreinu. Það snerist um fjármögnun á einstökum framkvæmdum, sem textinn á bls. 14 virðist líka benda til.

Til að segja það í eins skýrum orðum og hægt er: Er það stefna stjórnvalda að taka upp veggjöld á ákveðnum framkvæmdum í samgöngum? Verður samgönguáætlun tekin upp í haust eins og spáð (Forseti hringir.) var fyrir um í veggjaldaumræðunni?