150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:30]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni, formanni efnahags- og viðskiptanefndar, fyrir gott samstarf eins og hann kom að í ræðu sinni. Það er alveg rétt. Þó að ágreiningur hafi verið um ýmsar leiðir og að fjölmörg okkar hafi ekki talið þessar aðgerðir ganga nægilega langt ber að fagna því að gott samstarf tókst um að laga það að því marki sem hægt var. Ber að þakka fyrir slíkt.

Hv. þingmaður segir hér ítrekað að hann ætlist til þess að bankar og fyrirtæki, sérstaklega bankarnir, svari því ákalli að styðja við íslenskt atvinnulíf á krefjandi tímum. Ég ætlast til og krefst þess að stjórnvöld geri slíkt hið sama og þess vegna vil ég spyrja: Telur hv. þingmaður ekki nauðsynlegt að ganga lengra en bara að fresta og veita lánafyrirgreiðslu? Þurfum við ekki með einhverjum hætti að grípa til (Forseti hringir.) varanlegra ráðstafana til að létta á mögulegum skuldaklafa atvinnulífsins þegar út úr þessari fordæmalausu krísu verður komið?