150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um fjárfestingarátakið og fjáraukalagafrumvarpið og mig langar að spyrja hv. þm. Willum Þór Þórsson eins. Til öryrkjanna er komið framlag upp á 20.000 kr. sem er gott, bara frábært, en á sama tíma voru hækkaðar úr 20.000 í 30.000 barnabætur þeirra sem aldrei hafa fengið barnabætur vegna þess að þeir eru með of háar tekjur. Ég hefði sagt að 50.000 kr. til öryrkjanna hefði verið flott og ef við setjum það í samhengi við þennan björgunarpakka erum við að tala um 0,2–0,3% og ef við settum annað eins til þeirra eldri borgara sem þyrftu líka á því að halda erum við komin í rúmlega 0,5% af heildarpakkanum sem er ekki mikið. Af því að hann talaði um að þetta væri fyrsti pakkinn vona ég heitt og innilega að þessir aðilar séu fremstir í röðinni í næsta pakka.

Síðan langar mig að spyrja um bankaskattinn. Nú hefur hann lækkað um 11 milljarða. Hvernig á að tryggja að hann skili sér til fyrirtækja og almennings? Við sjáum að það að skuldbreyta lánum — nú eru vextir í sögulegu lágmarki hjá Seðlabankanum — en til að fólk geti notið þeirra í lánum sínum þarf að skuldbreyta þeim. Sumir eru með uppgreiðslu og þeir geta þetta ekki. Ég veit að þeir sem eru verst staddir eru þeir sem eru með íbúðalán frá Íbúðalánasjóði, hæstu vextina plús verðtryggingu. Ég óttast það líka og spyr hvort það sé inni hjá okkur ef verðbólgan fer af stað að stoppa þessar hækkanir ef verðtryggð lán heimilanna fara að hækka.