150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin sem voru frábær. Ég trúi því alveg og treysti að við séum sammála en ég hjó eftir þessari nefnd fyrir þau 10% eldri borgara sem eru í verstu stöðunni. Það væri mjög gott ef það væri líka svona nefnd fyrir öryrkjana sem eru í svipaðri aðstöðu, að þar væri líka verið að kortleggja þá verst settu meðal þeirra og koma góðum málum fram.

Ég hef líka verið að spá í þetta vegna þess að nú er talað um 35 milljarða frá ríkinu og 35 milljarða frá bönkunum. Ég tel að þetta sé eiginlega þannig uppsett að það séu 55 milljarðar frá ríkinu og 15 milljarðar frá bönkunum vegna þess að ríkið á svo til alveg tvo banka. Þetta er töluverð áhætta fyrir ríkið og þá er spurning hversu vel við ætlum að verja þeim peningum og hvort ekki verði vel fylgst með og passað upp á að þetta skili sér virkilega til þeirra sem á þurfa að halda.