150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[15:25]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Varðandi ferðaþjónustuna tel ég töluvert ósanngjarnt að bera hana saman við bankana. Miðað við hlutfall af landsframleiðslu er ferðaþjónustan með um 8%, svipað og sjávarútvegurinn í dag. Ég tel málum þannig háttað að hún muni koma að stóru leyti til baka á næstu árum. Það er tilhneiging til þess innan ferðaþjónustunnar í sögulegu samhengi. Ef menn skoða mikil áföll sem hafa orðið í ferðaþjónustu, hvort sem er á heimsvísu eða innan ákveðinna landa vegna hermdarverka eða slíkra þátta, sést að hún er ótrúlega seig.

Gögnin sem ég er með um Tækniþróunarsjóð eru um að framlögin hafi hækkað mikið á verðlagi 2019 fjögur ár aftur í tímann, upp í um 2.300 milljónir. Hún er búin að vera sirka þar, vísitalan hefur étið það niður um nokkrar milljónir en verðbólgan er svo lág hjá okkur núna að þar eru ekki háar upphæðir. Upphæðin til Tækniþróunarsjóðs fer yfir 3 milljarða á þessu ári eins og gögnin sýna. Það er alveg ljóst.

Ég tek undir áhyggjur af atvinnuhorfum fyrir ungt fólk í sumar, hvort sem það eru framhaldsskólanemar eða háskólanemar. Það er gríðarlega mikilvægt að skapa verkefni fyrir unga fólkið í sumar. Við skoðuðum ýmislegt í nefndinni eins og Nýsköpunarsjóð námsmanna, girðingavinnu hjá Vegagerðinni og skógrækt og vorum með ýmsar hugmyndir. Ég tek undir að það er gríðarlega mikilvægt að við náum árangri þar.

Ég vil sem sagt ekki bera saman ferðaþjónustuna og bankana fyrir 10–12 árum með tilliti til efnahagsmála. Ég held að við séum í allt öðrum málum núna en þá. Þetta er skammtímamál (Forseti hringir.) og þetta mun lagast á komandi misserum.