150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef oft talað um þessa innviðaskuld sem er dálítið grundvöllurinn fyrir þessu fjárfestingarátaki að því er mér finnst. Við erum að borga inn á þá skuld með fjárfestingarátakinu og ástæðan fyrir því er bæði sú að við erum með skuldina, hún liggur þarna fyrir framan okkur og er möguleiki sem við getum gripið til á mjög einfaldan hátt. Það er gott og blessað. Vandamálið er að við erum með miklu fleiri vandamál sem eru ekki eins augljós af því að við erum búin að spóla í sama hjólfarinu. Kaldhæðnislega eru það einmitt alltaf slæmu vegirnir sem gera það að verkum að við spólum í sama hjólfarinu og öll okkar athygli beinist þangað.

Það endurspeglast t.d. í vandamálum með hjúkrunarheimili. Við erum búin að sjá það vandamál í fjölmörg ár og alltaf er það tengt við t.d. fráflæðisvandann hjá Landspítalanum sem veldur auknum kostnaði þar. Það er búið að segja okkur þetta í mörg ár en ekkert hefur gerst. Það eru svona atriði víðs vegar um samfélagið sem hringja þessum bjöllum hjá mér, þegar kemur krísa erum við tilbúin til þess að gefa í og búa til brú til að komast yfir áfallið en það augljósa og það fyrsta sem við getum gripið í er steypa og malbik, ekki öll hin vandamálin sem eru grafin einhvers staðar undir þeirri innviðaskuld sem ég hef oft minnst á, ekki hjúkrunarheimilin á þann hátt sem við hefðum átt að vera búin að grípa í fyrir mörgum árum, ekki nýsköpunin sem átti og var sett upp sem fjórða stoðin til að vera með ekki öll eggin í sömu körfunni. (Forseti hringir.) Það er hluti af vandamálinu sem við lendum í núna af því að ef ein af stóru körfunum okkar bilar fer allt á hliðina.