150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[16:56]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga og breytingartillögur bæði meiri hluta og minni hluta við það sem liggur fyrir þinginu. Það getur verið freistandi að detta í langa upptalningu á þeim verkefnum sem lögð eru til af hálfu stjórnarinnar og ræða kosti og galla einstakra liða sem og kosti og galla einstakra liða í þeim breytingartillögum sem liggja fyrir.

Það er bara ekki það sem málið snýst um. Vandi okkar er sá að hér er stöðugt talað um að staða okkar til að takast á við þessa kreppu sé miklum mun betri en hún var fyrir hrun. Það er alveg rétt. Ríkissjóður stendur að mörgu leyti mun betur. Heimilin eru minna skuldsett og svo mætti áfram telja. Vandinn er hins vegar sá að þetta er allt öðruvísi niðursveifla, allt öðruvísi kreppa sem við erum að fara að glíma við, líkt og nágrannalönd okkar hafa verið að gera með sínum ráðstöfunum. Þar er verið að taka á því sem ekki er hægt að kalla annað en algjört stopp í hagkerfum heimsins um tíma. Við vitum ekki hversu lengi það getur verið, næsta mánuðinn eða tvo eða þrjá. Við sjáum högg á hagkerfið okkar núna sem á sér enga hliðstæðu, engin fordæmi fyrir slíku og vonandi upplifum við aldrei svona aftur. Við sjáum sennilega vel á þriðja tug þúsunda, ef ekki meira, fara á hlutabætur um þessi mánaðamót. Það felur í sér verulega tekjuskerðingu fyrir viðkomandi einstaklinga. Þúsundir manna missa atvinnu sína í þessum mánuði einum. Svona höfum við aldrei séð áður. Þegar við tölum í þessu samhengi um að staða ríkissjóðs sé miklu betri skulum við beita þessari góðu stöðu til þess að lina höggið.

Stærsti gallinn á tillögum ríkisstjórnarinnar er að þessum fjárhagslega styrk ríkissjóðs er einfaldlega ekki beitt sem skyldi. Af 230 milljarða aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar eru 170 milljarðar fólgnir í gjaldfrestum fyrir atvinnulífið og ríkisábyrgðum á lánveitingar, 170 milljarðar af 230. 10 milljarðar þar til viðbótar eru möguleg úttekt landsmanna á séreignarsparnaði. Bein innspýting í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar í hagkerfið hleypur á bilinu 50–60 milljarðar og hér erum við að ræða tillögur meiri hluta eða sem fjárlaganefnd öll stendur að um viðbætur upp á 5 milljarða inn í þann pakka.

Við erum hálfdrættingar á við nágrannalönd okkar þegar kemur að umfangi opinberra aðgerða og það verður bara að segjast eins og er að aðgerðir ríkisstjórnarinnar duga engan veginn til. Í umræðunni er sagt sýknt og heilagt að meira komi en það eru engin svör um það hvað þetta „meira“ verði eða hvenær það komi fram. Viðbragðið þarf að vera núna, viðbragðið þarf að vera sterkt núna af því að fólk er að missa vinnuna núna. Fyrirtæki eru að lenda í gríðarlegum rekstrarvanda núna. Þessi rekstrarvandi fyrirtækjanna hefur í yfirgnæfandi meiri hluta tilvika ekkert með það að gera hvort þeim hefur gengið vel eða illa áður. Það endurspeglar einfaldlega þá fullkomnu óvissu sem upp er komin vegna sóttvarnaaðgerða, við erum að stöðva hagkerfið í raun og veru í sóttvarnaskyni, og fullkomna óvissu um það hvernig ferðaþjónustan muni taka við sér að nýju þegar við komum út úr þessu ástandi og hversu langan tíma það tekur.

Flestum ber saman um það í dag að óvarlegt sé að gera ráð fyrir mikilli viðspyrnu frá ferðaþjónustu á þessu ári, samdrátturinn verði mjög mikill og varnarbaráttan sömuleiðis. Við þessar aðstæður er svo mikilvægt að við grípum til réttra úrræða, grípum til aðgerða sem skila raunverulega árangri í að minnka tjónið eins og kostur er. Við þurfum að horfa til þess hvernig við getum stutt við litlu og meðalstóru fyrirtækin. Því má ekki gleyma að helmingur landsmanna starfar hjá slíkum fyrirtækjum, með færri en 20 starfsmenn. Þetta eru fyrirtækin sem róa lífróður í dag. Stuðningur við þau er stuðningur við heimilin í landinu. Það er verið að reyna að bjarga störfum, bjarga lífsafkomu fólks og koma í veg fyrir að tekjutjón verði enn meira.

Það er hættulegt að gera of lítið. Stjórnmálamenn og fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa talað fjálglega um að við þessar kringumstæður sé betra að gera meira en minna. Ég auglýsi eftir þessu meira. Hvar er það? Það sem við sjáum er minna. Ef við gerum ekki nóg er hætta á því að þetta skammtímahögg, sem er svo gjarnan talað um, verði að langtímakreppu. Það má ekki gleyma því að þegar þúsundir manna missa vinnuna og tugþúsundir missa stóran hluta tekna sinna hefur það geigvænleg áhrif á eftirspurn í hagkerfinu. Það mun hríslast út um allt hagkerfið í miklum samdrætti ef við náum ekki góðri viðspyrnu. Þess vegna ítreka ég enn að ekki dugir að tala um sterka stöðu ríkissjóðs til viðspyrnu ef hún er ekki notuð. Það dugir ekki að ætla að koma með miklar og bólgnar fjárfestingaráætlanir í fjármálaáætlun fyrir næsta ár í fjárlagaumræðu fyrir næsta ár. Það verður of seint og það þýðir að niðursveiflan verður dýpri en ella, efnahagslegar afleiðingar fyrir okkur öll verða miklu verri en ella.

Þess vegna segi ég enn og aftur: Ég hvet ríkisstjórnina til dáða. Ég hvet ráðherra ríkisstjórnarinnar til að standa við endurteknar yfirlýsingar sínar um að við þessar kringumstæður sé betra að gera meira en minna. Hins vegar bólar ekkert á þeim. Ég geri fastlega ráð fyrir því, því miður, að í þeirri umræðu og atkvæðagreiðslu sem við erum að fara í í dag um tillögur minni hluta munum við sjá hinar hefðbundnu pólitísku línur. Þó að hæstv. forsætisráðherra hafi sagt í morgun að hver einasti þingmaður sé aðeins bundinn af sannfæringu sinni munum við væntanlega sjá að sú sannfæring hjá stjórnarmeirihlutanum verður æðieinsleit. Þessar tillögur verða vafalítið felldar hver ein og einasta og það þykir mér miður. Þar erum við bara að detta í hefðbundnar pólitískar skotgrafir.

Minni hlutinn lagði sig fram um að ná fram ásættanlegum breytingum á aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í umræðu, sérstaklega í fjárlaganefnd en einnig í efnahags- og viðskiptanefnd, en því miður verður að segjast eins og er að þrátt fyrir gott samstarf og góðan vilja rákumst við einfaldlega á vegg þegar kom að stærri aðgerðum. Það var alveg ljóst að búið var að setja þak á þá viðbót sem mátti koma með við aðgerðapakka stjórnarinnar og það þak var 4–5 milljarðar í viðbót. Það er ekki það sem þarf. Það þarf a.m.k. 20–30 milljarða til viðbótar í aðgerðir sem flestar þurfa að komast til framkvæmda strax. Það sem við í minni hlutanum erum að mæla fyrir eru allt mjög raunhæfar aðgerðir. Þetta eru aðgerðir og framkvæmdir í vegakerfinu, framkvæmdir sem hægt væri að ráðast í núna. Ég skil ekki af hverju í ósköpunum við erum t.d. enn með á borðinu frumvarp um veggjald eða einkafjármögnun á framkvæmd eins og Ölfusárbrú sem hæglega væri hægt að kippa inn í opinberar framkvæmdir og hlífa landsmönnum við auknum álögum við þessar kringumstæður. Ríkissjóður ræður við þessa framkvæmd. Samkvæmt mínum upplýsingum er hún meira og minna tilbúin. Það þarf ákvörðun til að ráðast í hana. Þá á ekki að bíða eftir því að hægt sé að bjóða hana út í einkafjármögnunarfyrirkomulagi heldur á ríkissjóður einfaldlega að segja: Við tökum þessa framkvæmd, við fjármögnum hana að fullu og hrindum henni af stað.

Hið sama má segja um verkefni eins og tvöföldun Reykjanesbrautar. Við erum búin að vera með það verkefni á hönnunarborðinu í sennilega á þriðja áratug. Þetta hlýtur að vera orðið tilbúið. Það hlýtur að vera hægt að hrinda því verkefni af stað. Hvaða skilaboð eru það til íbúa á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi stefnir í allt að 20% þessi dægrin að ekki sé hægt við þessar kringumstæður að ráðast í viðamiklar fjárfestingar á því svæði?

Þessi ríkisstjórn hefur ítrekað talað um mikilvægi þess að ráðast í átak við uppbyggingu hjúkrunarrýma. Það er ekki stafkrókur um slíkt átak í þessum fjárfestingarpakka ríkisstjórnarinnar. Hvenær í ósköpunum er hægt að ráðast í þær framkvæmdir ef ekki núna? Hvað hefur verið gert í uppbyggingu 200 hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu sem hæstv. heilbrigðisráðherra talaði um fyrir einu og hálfu ári að stæði til að ráðast í en eru hvergi nærri tilbúin til útboðs eða framkvæmda? Það er rétt rúmlega ár til kosninga. Hér væri hægt að ráðast í átak. Á Suðurnesjum er tilbúið verkefni í uppbyggingu hjúkrunarrýma, á því svæði sem er að verða hvað harðast úti í þessari kreppu. Tökum það, ráðumst í það og byggjum upp.

Það er hægt að gera miklu meira og þetta eru raunhæfar tillögur, þetta eru raunhæf verkefni sem við í minni hlutanum leggjum til og minni hlutinn stendur sameinaður að. Þó að minni hlutann greini á um margt og hann kunni að virka sundurleitur á köflum tókst þessari ríkisstjórn með alveg einstakri stífni og óbilgirni gagnvart eðlilegri beiðni minni hlutans um að meira yrði gert að sameina þennan sundurleita minni hluta um sameiginlegar tillögur til viðbótar. Þess vegna leggjum við til að 9 milljörðum verði bætt í vegaframkvæmdir á þessu ári, verkefni eins og Reykjanesbraut, Suðurlandsveg og Vesturlandsveg, verkefni sem hægt er að ráðast í og hraða. Það kæmi ekki að sök þó að þau kæmust ekki að fullu til framkvæmda á þessu ári, þau yrðu þá komin af stað og fylgdu okkur inn í næsta ár. Þær fjárheimildir sem fengjust til þessara verkefna núna myndu fylgja þeim inn í næsta ár.

Annar þáttur sem ég á mjög erfitt með að skilja er hversu tregur stjórnarmeirihlutinn er til að taka undir tillögur um aukin framlög til nýsköpunar. Hvenær ef ekki núna? spyr ég enn. Við vitum ekki hvenær ferðaþjónustan tekur við sér og veitir okkur þá efnahagslegu viðspyrnu sem við þurfum. Við vitum að það eru fjölmörg tækifæri í tækni- og sprotafyrirtækjum og þessi sömu fyrirtæki segja okkur að ef við myndum hækka endurgreiðsluþakið á kostnaði vegna rannsókna og þróunar yrði það nýtt. Alþjóðleg tæknifyrirtæki sem við eigum og starfa hér á landinu væru tilbúin að færa slík verkefni til landsins, skapa atvinnu og viðspyrnu. Þarna eru fjölmörg tækifæri. Það eru líka fjölmörg tækifæri til að auka enn frekar við framlög í Tækniþróunarsjóð og aðra innviðasjóði. Við höfum ítrekað fengið upplýsingar um það í fjárlaganefnd að fjölmörg verkefni sem hafa fengið hæstu einkunn í mati á gæðum hafa ekki fengið úthlutað úr þessum sjóðum, einfaldlega út af fjárskorti. Þarna er svo sannarlega hægt að gera betur.

Við vitum að við getum og þurfum að gera miklu meira í velferðarmálum. Það þarf að leggja aukið fjármagn í vaxtabætur og húsnæðisbætur. Heimilin taka á sig mikið högg í afkomu og veitir ekki af auknum stuðningi við þær kringumstæður, fyrir utan þá óvissu sem fylgir gengisfallinu og mögulegu verðbólguskoti. Við skynjum alveg þann ótta sem er í samfélaginu núna við aukna verðbólgu, við hækkun á verðtryggðum lánum og við hækkun á leigu ofan í efnahagslegan samdrátt, atvinnumissi eða verulega tekjuskerðingu. Við þær kringumstæður eigum við einmitt að auka verulega fjárframlög í húsnæðisbætur og vaxtabætur til að koma til móts við heimilin hvað þetta varðar.

Fjölmörg önnur verkefni mætti vissulega nefna sem snúa að heimilunum. Félagar mínir í minni hlutanum hafa farið ágætlega yfir þau og ég ætla ekki að tíunda þau frekar. Lykilatriðið er að á borði þingheims standa tillögur minni hlutans, rökstuddar, raunhæfar tillögur um aðgerðir sem hægt er að grípa til núna til að spýta einhverju lífi í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar þannig að hann komist a.m.k. nálægt því að duga til sem fyrsta viðbragð við þessari efnahagsvá. Ég vona sannarlega að sannfæring stjórnarþingmanna, sem hæstv. forsætisráðherra vísaði til í morgun að væri það eina sem myndi binda atkvæði þeirra í dag, standi til þess að gera meira, taka undir með ráðherrum sínum sem hafa ítrekað sagt að betra sé að gera meira en minna. Það er nefnilega rétt. Það er betra og það er nauðsynlegt að gera meira en minna og það er nauðsynlegt að grípa til aðgerða strax.