150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[17:13]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Til að halda áfram gagnkvæmu skjallbandalagi okkar þakka ég enn og aftur líka fyrir enda full ástæða til, samstarfið í nefndinni var mjög gott svo langt sem það náði. Ég veit að hv. þingmanni er full alvara þegar hann segir að hann vilji ekki eyða orku í að deila um þörfina til að gera meira. Ég fann mjög sterkt í vinnu nefndarinnar og þeim tillögum sem við fluttum þar að sannarlega var skilningur og áhugi á að gera meira. Ég skil það að að einhverju leyti eru hendur meiri hlutans alltaf bundnar af vilja ríkisstjórnar við slíkar kringumstæður. Það breytir þó ekki vonbrigðum mínum með að við skyldum ekki nýta tækifærið, sér í lagi þegar kemur að nýsköpunar- og tæknigeiranum. Áhætta ríkissjóðs af því að hækka endurgreiðsluhlutfallið út frá óvissu um hvaða störf það kunni mögulega að skapa er sáralítil. Fjármagnið verður ekki nýtt nema verkefnin skili sér. Þess vegna hefði verið svo áhættulítið fyrir ríkissjóð að spýta þar myndarlega í og sjá svo hvað kæmi. Ég held að það sé ágætt fyrir okkur að hafa í huga þegar við hefjum uppbyggingu að loknum þessum heimsfaraldri að það er ekki sjálfgefið að sama hagkerfi muni rísa upp úr öskustónni, ef mætti nota þá myndlíkingu. Það væri hollt fyrir okkur öll að rifja upp þau heilræði sem við fengum eftir hrun í McKinsey-skýrslunni um áherslu á þekkingarfyrirtækin okkar, á alþjóðageirann okkar og uppbygginguna þar. Ég held að við ættum að sameinast um það. Ferðaþjónustan mun rísa, ég hef fulla trú á því, en ég vona svo sannarlega að við getum tekið höndum saman um að byggja (Forseti hringir.) tækni- og þekkingargeirann upp úr þeim efnahagserfiðleikum sem við glímum við. Það má auðvitað aldrei gleyma því að í öllum svona krísum liggja líka tækifæri. Ég held að okkar tækifæri liggi alveg klárlega þar.