150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[17:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tek heils hugar undir með honum að auðvitað var þetta gert í góðu samstarfi og líka í velferðarnefnd, eins og hefur komið fram, þegar við tókum þessa tvo pakka sem þar voru inni. Þetta var allt gert í góðri samvinnu og tekið tillit til skoðana beggja aðila en kannski eins og oft er, maður fær ekki allt.

Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það er rosalega gott í þessum pakka að endurgreiða á virðisaukaskatt af bílaviðgerðum og viðhaldi húsa. Þetta er frábært framtak. Við sáum það í hruninu að þetta skilar sér til baka og það er meiri háttar að tekið skuli vera tillit til þessa, bílarnir komu inn eftir á, og þetta var eitt af því sem var bent á og tekið til greina.

Ég vona heitt og innilega að þeir fjármunir sem eru merktir íþróttafélögunum verði nægir. Íþróttafélögin eru mörg og rekstur sumra er slæmur fyrir og hefur örugglega stórversnað eftir að tekjur hætta að koma inn. Ég vona svo heitt og innilega að þetta dugi til að halda lífi í þeim flestum vegna þess að við verðum að vera tilbúin að fara af stað strax og þessu lýkur. Einnig vona ég að velferðarpakkinn verði vel útfærður þegar hann kemur og við getum tekið okkur saman um hvernig við eigum að standa að honum.