150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[19:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég ætla að greiða atkvæði með þessu máli eins og öllum öðrum málum í kvöld. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir nefndi áðan að gripið yrði inn í ef þurfa þætti. Það þarf. Það þarf að grípa inn í strax með miklu meira afgerandi hætti en raun ber vitni. Stjórnarandstaðan lagði fram lista af tillögum, ekki óskalista hvers flokks um sig heldur tillögur sem eru þess eðlis að það er hægt að ráðast í þær strax. Þær eru til þess fallnar að bæta við tillögur ríkisstjórnarinnar á augljósan hátt með aðgerðum sem er brýn þörf á. Engu að síður voru þær tillögur allar felldar, hver ein og einasta, af stjórnarmeirihlutanum. Þó munum við halda okkur við það að styðja allar tillögur stjórnarmeirihlutans, allt sem miðar að því að koma til móts við ástandið. En það þarf svo miklu meira til og tíminn er núna því að aðgerðir á réttum tíma (Forseti hringir.) skila miklu meiri árangri en þær sem koma of seint.