151. löggjafarþing — 84. fundur,  22. apr. 2021.

viðbrögð við uppgangi skipulagðrar glæpastarfsemi.

742. mál
[04:29]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Miðflokkurinn hefur lagt fram beiðni um skýrslu frá hæstv. dómsmálaráðherra sem við teljum mjög mikilvæga og tímabæra. Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur í mörgum skýrslum í fjöldamörg ár bent á þá hættu að uppgangur skipulagðrar glæpastarfsemi sé að aukast á Íslandi. Í skýrslum greiningardeildar eru talin upp ýmis atriði sem þarf að bæta í löggæslunni og hjá lögreglunni. Við óskum eftir því í þessari skýrslubeiðni, í liðum a–g, að dómsmálaráðherra geri grein fyrir því hvað hafi verið tekið til bragðs eða hvað hæstv. dómsmálaráðherra hyggist taka til bragðs til að koma til móts við ábendingar greiningardeildar.