Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

ylræktargarður.

[10:54]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er kannski svolítið mikið í lagt að gefa nákvæmt svar við hugmynd sem ég hef ekki heyrt reifaða áður. Hins vegar liggur það alveg fyrir sem hv. þingmaður er hér að vísa til og er ein af þeim fjölmörgu hugmyndum sem eru í gangi þegar kemur að nýtingu á grænni orku. Ég held að við séum komin í þá stöðu. Ég hef aðeins tekið þátt í stjórnmálum, ekki bara sem kjörinn fulltrúi heldur líka sem fótgönguliði í Sjálfstæðisflokknum og byrjaði í ungliðahreyfingunni, og ég held að það séu mikil þáttaskil núna vegna þess að fram til þessa og löngu áður en ég hóf þátttöku í stjórnmálum höfum við verið að sækja mikið í erlenda fjárfestingu. Núna eru mjög margir aðilar sem líta til okkar af því að hér á undan okkur var fólk sem gekk fram og hóf framleiðslu á grænni orku þegar aðrir voru ekki að gera það og við eigum enn þá möguleika á því. Ylrækt er svo sannarlega mjög spennandi kostur, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Sá sem hér stendur stýrir ekki orkufyrirtækjunum en hefur eðli máls samkvæmt margt um málið að segja, eins og við öll í þessum sal. Ég held að þær hugmyndir sem hv. þingmaður reifar hér lauslega séu mjög áhugaverðar og mjög spennandi, en ég vek líka athygli á því að það eru margar aðrar hugmyndir í gangi sem miða allar að hinu sama, sem er að koma hér með græna starfsemi, m.a. matvælaframleiðslu. Það gerir það að verkum að maður horfi bjartsýnn fram á veginn, en við þurfum hins vegar að halda vel utan um hlutina til að eitthvað af þessum tækifærum raungerist, því að þau gera það aldrei þau öll.