Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[16:22]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nú verð ég að viðurkenna að ég er ekki sérfræðingur í virðisaukaskattsmálum, enda fékk ég alltaf endurskoðanda þegar ég var með mitt eigið fyrirtæki til að sjá um það allt fyrir mig svo að það væri rétt gert. En ef ég skil lögin rétt þá fellur virðisaukaskattur í raun líka niður gagnvart fyrirtækjum sem ætla að kaupa sér rafmagnsbíla. Það er reyndar þannig með fyrirtæki, það lærði ég, að þau geta haft innskatt á móti útskatti þegar kemur að virðisauka og því er kannski óþarfi að fella virðisaukaskattinn niður á bílunum sem fyrirtækin eru að kaupa. Maður hefur séð mikið um það á undanförnum árum, sér í lagi á undanförnu ári, að verið er að skipta yfir í rafmagnsbíla hjá fyrirtækjum og stofnunum. Margir þingmenn Alþingis sem fá bíl til umráða vegna þess að þeir koma utan af landi eru t.d. á rafmagnsbílum.

Mig langaði að spyrja hvað hv. þingmanni fyndist, hvort það sé í raun réttlátt að við séum líka að fella þetta niður hjá fyrirtækjunum sem geta nýtt þetta sem innskatt, og þar af leiðandi fækkað tækifærunum fyrir fjölskyldurnar því að við erum jú að tala um takmarkaðan fjölda hér.