Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

Störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil ræða rödd barna við ákvarðanir stjórnvalda. Ég hef nokkrar áhyggjur af því að komið sé bakslag í kerfin okkar þegar kemur að því að hlusta á vilja barna eftir því sem aldur þeirra og þroski leyfir. Við framkvæmd ákvörðunar um lögheimili, forsjá og umgengni hefur nokkuð borið á því að lítið sem ekkert sé hlustað á vilja barnanna sjálfra, hvort heldur sem er hjá dómstólum eða sýslumönnum. Við skulum hafa tvo varnagla á hvernig afstöðu barns er náð fram, annars vegar er það auðvitað aldur og þroski og hins vegar hvort tilraun hafi verið gerð til innrætingar hjá börnunum. Við ákvörðun um áðurnefnda hluti eru yfirleitt kallaðir til sérfræðingar sem meta einmitt þetta og segja og leiðbeina stjórnvöldum.

Nú er auðvitað flókið að ræða þetta mál án þess að fara of djúpt ofan í einstök mál, en þau eru fjölmörg. Í skýrslu GREVIO sem birtist síðasta haust, um aðgerðir stjórnvalda til varnar ofbeldi gegn börnum og konum og ofbeldi almennt, kom fram að í ákvörðunum í umgengnis- og forsjármálum þætti nefndinni ekki nægjanlega horft til ofbeldis sem átt hefði sér stað gagnvart barni og foreldri. Í framhaldi af því brá mér þess vegna nokkuð að sjá og heyra af bréfi frá dómsmálaráðuneytinu til lögreglu þar sem verið er að gefa skýr skilaboð um valdheimildir lögreglu í málum eins og þeim sem ég ræði hér um, hvaða sjónarmiða eigi að horfa til og túlkunar á barnalögum. Er þar lögreglu leiðbeint að horfa til lögreglulaga um skyldur sínar, án þess að þar sé nokkuð vikið að því að hlustað sé á barnið, að hagsmuna barnsins sé gætt með tilliti til þroska þess og aldurs, og eins hvort barnalögin og barnasáttmálinn séu tryggð við aðförina og framkvæmdina.

Ég held að við hljótum að geta staðið saman í því og komið okkur saman um að allir valdhafar þessa lands hlusti fyrst og fremst á vilja barnanna og horfi fyrst og fremst á hagsmuni þeirra þegar kemur að þessum málum. (Forseti hringir.) Alveg óháð öllu öðru er það skylda okkar gagnvart komandi kynslóðum.