Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[14:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Allsherjarinnrás Rússlands í Úkraínu 24. febrúar 2022 hefur valdið straumhvörfum í alþjóðapólitík og öryggisumhverfi Evrópu og litar nánast allt samstarf Íslands á alþjóðavettvangi. Sú skýrsla um utanríkis- og alþjóðamál sem nú er lögð fyrir Alþingi kemur að þessu sinni út í skugga alvarlegustu stríðsátaka í okkar heimshluta frá seinna stríði og hún ber þess augljós merki.

Í síðustu viku heimsótti ég Kænugarð ásamt forsætisráðherra. Þetta var í annað skipti frá því að allsherjarinnrásin hófst sem ég heimsótti höfuðborg Úkraínu. Þar gafst okkur m.a. tækifæri til að skoða vettvang grimmdarlegra glæpa innrásarhersins í Bucha og Borodianka ásamt því að eiga fund með Volodomyr Zelenskí forseta Úkraínu og öðrum háttsettum embættismönnum í úkraínska stjórnkerfinu. Glæpir sem hafa verið framdir í nafni Rússlands eru þess eðlis að einungis algjört siðrof og afmennskun getur útskýrt þá. Brot á mannúðarlögum blasa við en heildarumfangið er enn þá langt frá því að vera ljóst. Eitt af því sem vekur sérstakan hrylling er markviss brottflutningur barna og ungmenna frá Úkraínu til Rússlands þar sem markmiðið virðist vera að afmá úkraínskan uppruna þeirra. Sú sögulega ákvörðun Alþjóðlega sakamáladómstólsins síðastliðinn föstudag að gefa út handtökuskipun á hendur Vladimír Pútín forseta Rússlands vegna þessara glæpa undirstrikar alvarleikann og þá staðreynd að ákaflega auðvelt er fyrir allar réttsýnar manneskjur að taka skýra og afdráttarlausa afstöðu gegn ofbeldisgerandanum Rússlandi og með þeirri þjóð sem af tilefnislausu varð fyrir fólskulegri árás og verst hetjulega.

Mikilvægt er að skrásetja þá glæpi og tjón sem innrásin hefur valdið svo mögulegt verði að sækja réttlæti fyrir úkraínsku þjóðina þegar stríðinu lýkur Ísland leggur áherslu á að leggja sitt af mörkum til að skipuleggja og efla samstöðu um aðferðir til að stuðla að slíku réttlæti. Annars vegar hefur Ísland undirstrikað þátt Evrópuráðsins í regluverki utan um ábyrgðarskyldu Rússlands og hins vegar höfum við gerst aðili að kjarnahópi um stofnun sérstaks dómstóls um glæpi gegn friði. Yfirgangur Rússa hefur enn einu sinni staðfest að tilvera þjóða byggist á virðingu fyrir alþjóðalögum, landamærum og landhelgi. Þetta á ekki síst við um fámenna og herlausa þjóð sem byggir á traustu öryggis- og varnarsamstarfi við bandamenn. Því styður Ísland hið alþjóðlega regluverk þjóða heims sem umfram allt á að hindra að aflsmunur ráði í samskiptum þjóða.

Atlantshafsbandalagið hefur brugðist við breyttum aðstæðum með því að auka varnarbúnað, ekki síst í Austur-Evrópu, með fjölgun og tilfærslu á liðsafla og aukinni viðveru. Allar þessar aðgerðir miða að því að efla árvekni, gæslu og eftirlit með landsvæði, loftrými og hafsvæði bandalagsríkja. Aðgerðirnar fela einnig í sér skýr fælingarskilaboð gagnvart rússneskum stjórnvöldum. Ísland hefur frá fyrsta degi stríðsins verið samstiga bandalags- og samstarfsríkjum í stuðningi við Úkraínu og tekur þátt í víðtækum þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi. Ísland hefur einnig fylgt þeirri stefnu að takmarka mjög samskipti við Rússland. Stuðningur íslenskra stjórnvalda við Úkraínu felst einnig í mannúðaraðstoð, efnahagslegum stuðningi og framlögum til varnarmála. Samtals nam fjárhagslegur stuðningur Íslands við Úkraínu hátt í 2,2 milljörðum króna á árinu 2022, Þá skipulagði Ísland flutninga á hergögnum frá bandalagsríkjum til Úkraínu. Ísland hafði einnig forgöngu um skipulagningu þjálfunar fyrir Úkraínu í sprengjuleit og sprengjueyðingu sem er samstarfsverkefni Norðurlandanna og Litháen. Í dag var einmitt tilkynnt um upphaf þessarar þjálfunar. Þá hafa stjórnvöld, fyrirtæki og almenningur á Íslandi stutt Úkraínu með sendingu matvæla, rafbúnaðar, stoðtækja og vetrarbúnaðar, m.a. í gegnum átakið Sendum hlýju. Það er ástæða til að þakka íslensku samfélagi fyrir þennan stuðning en mynd af því þegar níu tonn af hlýju voru send frá Íslandi í samvinnu við kanadíska flugherinn prýðir einmitt forsíðu skýrslunnar. Samstaða íslensks almennings með Úkraínu er dýrmætur í augum almennings þar í landi, eins og kom sérstaklega fram í máli Zelenskís forseta á fundinum með forsætisráðherra og mér síðastliðinn þriðjudag.

Engu að síður hrikti í stoðum alþjóðakerfisins sem þegar var laskað eftir heimsfaraldur, langvarandi mannúðarkrísur, vaxandi tómlæti og viðverandi pólitískan undirróður gegn því. Spennan á milli stórvelda hefur aukist og ljóst er að áhrifa hennar mun áfram gæta í fjölþjóðasamstarfi. Þar kristallast ólík sýn á alþjóðalög og reglur í alþjóðaviðskiptum, ekki síst grundvallarmannréttindi og frelsi. Virðing fyrir þeim eru á undanhaldi þvert á skuldbindingar ríkja heims en Ísland skipar sér í hóp þjóða sem standa vörð um þessi gildi og lætur að sér kveða á vettvangi alþjóðastofnana í þágu þeirra.

Ísland tók við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember síðastliðnum. Staða grundvallargilda Evrópuráðsins, mannréttinda, lýðræðis og réttarríkisins eru meginstoðir formennskuáætlunar Íslands. Að auki er stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum, málefnum barna og umhverfismálum gert hátt undir höfði. Vegna umskiptanna í pólitísku landslagi álfunnar í kjölfar innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu ákváðu aðildarríki ráðsins að haldinn yrði leiðtogafundur á Íslandi nú í maí. Fundurinn er aðeins sá fjórði í rúmlega 70 ára sögu Evrópuráðsins. Verkefnið er umfangsmikið en vonir standa til að fundurinn verði ríkjunum tilefni til að treysta stoðir ráðsins og gildi þess til framtíðar og staðfesta enn á ný stuðning ríkjanna við Úkraínu. Ísland tekur þá ábyrgð sína alvarlega að vera vettvangur leiðtogafundarins. Tilviljun ræður því að formennsku Íslands ber upp á örlagaríkum tímum en sem fullvalda og fullgildur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi öxlum við þessa ábyrgð af þeim metnaði sem verkefnið krefst.

Ísland tekur einnig virkan þátt í störfum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna og er í framboði til mannréttindaráðsins fyrir tímabilið 2025–2027. Það framboð er stutt af öllum ríkjum Norðurlanda. Ísland leiðir þar árlega ályktun um ástand mannréttinda í Íran á þeim vettvangi til að tryggja áframhaldandi umboð sérstaks skýrslugjafa um málefni Írans. Í lok nóvember höfðu Ísland og Þýskaland frumkvæði að sérstökum fundi mannréttindaráðsins sem samþykkti ályktun um stofnun óháðrar rannsóknarnefndar svo hægt verði að draga þá til ábyrgðar sem ofsótt hafa friðsama mótmælendur í Íran. Því miður hefur víða fjarað undan mannréttindum kvenna en þó hvergi eins mikið og í Afganistan þar sem konur hafa verið sviptar nær öllum réttindum. Á vettvangi UNESCO þar sem Ísland er í framkvæmdastjórn um þessar mundir leiddum við í tvígang samningaviðræður um ályktanir framkvæmdastjórnarinnar og eina sameiginlega yfirlýsingu um rétt kvenna og stúlkna til menntunar í Afganistan með stuðningi 50 ríkja. Fylgjendur fjölþjóðlegrar samvinnu, Norðurlöndin þar á meðal, verða að treysta samskiptin við ríki sem finnast þau ekki fá hljómgrunn innan alþjóðastofnana og þau beri sífellt skarðan hlut frá borði. Hlúa verður að alþjóðakerfinu og vinna með öllum ríkjum heims að því að mæta aðkallandi áskorunum á sviði loftslags-, auðlinda- og umhverfismála. Framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamkomulagsins hefur ekki miðað sem skyldi og því er nauðsynlegt að styðja áfram við framþróun í fátækari ríkjum og bregðast við vaxandi neyð sem að miklu leyti má rekja til náttúruhamfara eða hamfara af mannavöldum og vegna áhrifa heimsfaraldurs og aðgerða vegna hans.

Ísland hefur á undanförnum árum aukið framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Þau námu á síðasta ári 0,35 prósent af vergum þjóðartekjum. Þrátt fyrir skarpa hækkun þjóðarframleiðslu eftir að heimsfaraldrinum lauk og hallarekstur ríkissjóðs var ákveðið að viðhalda því hlutfalli árið 2023 og framlag til Úkraínu kæmi til viðbótar þeim fjármunum. Markmið Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu er að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli mannréttinda, kynjajafnréttis og sjálfbærrar þróunar. Meginstoðir þróunarsamvinnu okkar er stuðningur við tvíhliða samstarfsríki og samstarf við alþjóðastofnanir ásamt öflugri samvinnu við félagasamtök og atvinnulíf með ríka áherslu á árangur, skilvirkni og vönduð og fagleg vinnubrögð. Vinna er hafin við mótun stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2024–2028, sem tekur við af núgildandi stefnu. Á þessu ári er svo ráðgert að opna þriðju sendiskrifstofu Íslands í Afríku til að styðja við tvíhliða samvinnu við Síerra Leóne. Fyrir á Íslandi í tvíhliða samstarfi við Malaví og Úganda.

Auðlinda- og umhverfismál hafa lengi verið áherslumál í utanríkisstefnu og þróunarsamvinnu Íslands og loftslagsmálin fá sífellt stærri sess. Skömmu fyrir útgáfu þessarar skýrslu náðust sögulegir samningar um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni utan lögsögu ríkja. Ísland lagði sitt af mörkum til að samkomulag næðist en ekki þarf að fjölyrða um hve mikið hagsmunamál heilbrigði hafsins er fyrir velsæld lands og þjóðar.

Afleiðingar innrásar Rússlands í Úkraínu hafa beint sjónum að tengslum orkumála annars vegar og öryggismála í alþjóðlegu samhengi hins vegar og sýnt fram á mikilvægi þess að samfélög séu ekki háð orkugjöfum frá ótraustum ríkjum. Í ljósi orkukrísunnar hafa vaknað áhyggjur af því að mörgum ríkjum muni reynast erfitt að uppfylla loftslagsskuldbindingar sínar, sérstaklega til skemmri tíma litið. Á sama tíma er ljóst að orkukrísan kallar á hraðari orkuskipti en í því felast ýmis tækifæri til að hagnýta íslenska þekkingu og reynslu ef við kærum okkur um það.

Á norðurslóðum þar sem eining hefur ríkt um framtíð Norðurskautsráðsins eru horfurnar slæmar því að framferði rússneskra stjórnvalda hefur sett allt svæðisbundið samstarf úr skorðum. Stjórnvöld þurfa að halda vöku sinni og gæta veigamikilla hagsmuna á öllum sviðum sem varða þetta mikilvæga svæði.

Forseti. Aðildin að Atlantshafsbandalaginu, þar sem Ísland var í hópi 12 stofnríkja árið 1949, og varnarsamningurinn við Bandaríkin frá árinu 1951 eru meginstoðir öryggis okkar og varna. Ísland tryggir þannig ytra öryggi sitt og varnir með virku alþjóðlegu samstarfi, bæði marghliða og tvíhliða. Framlög til verkefna á sviði öryggis- og varnarmála sem falla undir utanríkisráðuneytið hafa hækkað á undanförnum árum og voru 3,8 milljarðar kr. á árinu 2022 að meðtöldum 650 millj. kr. vegna stuðnings við Úkraínu, vegna stríðsátaka og hergagnaflutninga til Úkraínu. Bandalagsríki Atlantshafsbandalagsins og önnur ríki Evrópu standa frammi fyrir fordæmalausum áskorunum í öryggis- og varnarmálum. Leiðarstefin sem starfað er eftir í varnar- og öryggismálum eru sett fram í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland; að tryggja sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins. Nýsamþykkt þjóðaröryggisstefnu tekur til nýrra ógna og áskoranna sem að okkur geta steðjað, t.d. netógna og upplýsingaóreiðu. Stefnan þróast þannig í takt við síbreytilegt öryggisumhverfi.

Ný grunnstefna Atlantshafsbandalagsins var samþykkt á leiðtogafundi bandalagsins í Madríd í júní síðastliðnum. Hún hafði verið í undirbúningi um langt skeið en innrás Rússlands í Úkraínu og breyttar öryggishorfur í Evrópu setja, eins og við er að búast, mark sitt á hana. Stefnan undirstrikar samheldni og samstöðu bandalagsríkjanna sem byggist á tengslunum yfir Atlantshafið og lýðræðislegum gildum. Grundvallarmarkmið Atlantshafsbandalagsins er að tryggja sameiginlegar varnir. Í stefnunni er lögð áhersla á að styrkja þurfi verulega fælingu, varnir og viðbragðsgetu bandalagsins sem er hryggjarstykki þeirrar skuldbindingar sem felst í 5. gr. stofnsáttmála þess. Áhersla er jafnframt lögð á styrkingu viðnámsþols til að tryggja öryggi samfélaga bandalagsríkja og það var undirstrikað mikilvægi þverlægra áherslumála; tæknilegrar nýsköpunar, loftslagsbreytinga, öryggi borgara sem og framkvæmdar á stefnu bandalagsins um konur, frið og öryggi.

Herra forseti. Í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu sóttu bæði Finnland og Svíþjóð um aðild að Atlantshafsbandalaginu 18. maí á síðasta ári. Það hefði þótt nær óhugsandi fáeinum mánuðum fyrr og sýnir glöggt þær breytingar sem hafa orðið á öryggisumhverfi álfunnar. Framlag Íslands til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins felst fyrst og fremst í þátttöku í samþættu loftrýmiseftirliti Atlantshafsbandalagsins, loftrýmisgæslu og æfingum bandalagsins og bandalagsríkja. Ísland veitir liðsafla vina- og bandalagsþjóða aðstöðu og gistiríkjastuðning og tryggir öruggan rekstur og getu varnarmannvirkja, eftirlits- og samskiptakerfa og búnaðar. Markvisst hefur verið unnið að því að efla þátttöku Íslands í herstjórn bandalagsins til að auka upplýsingamiðlun um aðgerðir þeirra og þróun mála í nágrenni Íslands.

Samvinna við Bandaríkin um varnir og öryggi á grundvelli varnarsamnings ríkjanna fer líka vaxandi. Ein birtingarmynd þess er tímabundin viðvera kafbátaeftirlitsflugvéla á Íslandi og sameiginlegar æfingar. Á vordögum fór varnaræfingin Norðurvíkingur fram á Íslandi sem náði hápunkti með landgöngu í Hvalfirði. Gera má ráð fyrir að samstarf við Bandaríkin og framlag Íslands til nauðsynlegra varna og viðbúnaðar Atlantshafsbandalagsins muni aukast á komandi misserum.

Loks hefur Ísland gert sig í auknum mæli gildandi í svæðisbundnu samstarfi á sviði öryggis- og varnarmála, svo sem á vettvangi NORDEFCO og innan sameiginlegu viðbragðssveitarinnar, sem við köllum JEF, sem Ísland gerðist aðili að árið 2021. Þá tók Ísland að sér formennsku í norðurhópnum svonefnda fyrri hluta árs 2022, en hann er samstarfsvettvangur líkt þenkjandi Norður-Evrópuríkja um öryggis- og varnarmál. Hér funduðu varnarmálaráðherrar hópsins í Reykjavík í júní á síðasta ári.

Að mínum dómi er það mikilvægt verkefni í íslenskum utanríkismálum að haldið verði áfram að nálgast samstarf í varnarmálum með þeim augum að Íslands sé verðugur bandamaður þeirra ríkja sem hafa skuldbundið sig til að verja landið okkar ef þörf er á. Að mínum dómi skiptir þar máli að við höldum áfram að hafa augun opin fyrir tækifærum þar sem smæð okkar, hröð stjórnsýsla og sérþekking á afmörkuðum sviðum getur komið til sérstaks gagns.

Herra forseti. Alþjóðlegt viðskiptaumhverfi og viðhorf til þess hefur tekið talsverðum breytingum á undanförnu. Innrás Rússlands í Úkraínu, þvingunaraðgerðir og aðgerðir í tengslum við Covid-19 faraldurinn hafa haft mikil áhrif á efnahag ríkja um allan heim. Sú hugmynd að samtvinnaðir viðskiptahagsmunir ríkja dugi til þess að tryggja friðsæld og framfarir kallar augljóslega á endurmat. Viðskipti við ríki sem lúta einræðisvaldi og þar sem virðing er ekki borin fyrir réttarríki og lýðræði fela í sér áhættu sem fyrirtæki og þjóðir taka í auknum mæli tillit til við mótun stefnu. Öryggissjónarmið hafa fengið aukið vægi í viðskiptastefnu ríkja og samkeppni þeirra í milli um sjaldgæfa málma og græna tækniþróun hefur sömuleiðis sett svip sinn á alþjóðaviðskiptaumhverfið. Sem lítið opið hagkerfi er Ísland háð því að alþjóðlegt viðskiptaumhverfi hvíli á fyrirsjáanlegum og skýrum leikreglum, hvort sem er á grundvelli Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, fríverslunarsamninga eða annarra viðskiptasamninga.

Forseti. Alþjóðleg fjárfesting sem tengist nýsköpun og sprotastarfsemi hefur aukist mikið á undanförnum árum og sú gleðilega og óvenjulega staða er nú uppi að Ísland er líklega eitt af þeim ríkjum þar sem frumkvöðlar í nýsköpunarfyrirtækjum eiga einna bestan aðgang að vísifjármagni. Samkeppnishæf nýsköpun á sér ætíð stað þvert yfir hefðbundin landamæri og þess vegna verður utanríkisstefnu Íslands í vaxandi mæli að taka mið af þörfum nýsköpunar og alþjóðlegrar frumkvöðlastarfsemi.

Á árinu 2022 voru 30 ár liðin frá því að EES-samningurinn var undirritaður. Íslenskt þjóðfélag hefur á þessum tíma tekið algjörum stakkaskiptum og ávinningurinn af aðild að samningnum er ótvíræður. Skammt er síðan ég flutti skýrslu um framkvæmd EES-samningsins hér á Alþingi og leyfi ég mér að vísa til hennar hvað þennan málaflokk varðar. Rétt er þó minna á að það er ekki síst á umbrotatímum eins og þeim sem við lifum nú sem samningurinn hefur sannað gildi sitt. Það á bæði við um heimsfaraldurinn þar sem samstarfið tryggði Íslandi snemma aðgengi að bóluefnum og stríðið í Úkraínu þar sem Ísland tekur þátt í samræmdum aðgerðum sömuleiðis.

Enda þótt íslensk stjórnvöld beiti sér ávallt fyrir frjálsum milliríkjaviðskiptum á samkeppnisgrundvelli blása vindar í alþjóðamálum sem er ekki unnt að líta fram hjá og vísbendingar eru um að aukinnar tilhneigingar til dilkadráttar muni gæta þegar kemur að hagvörnum og aðgengi að nauðsynlegri hráefni og aðföngum. Aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA, hefur átt mikilvægan þátt í að tryggja hagsæld hér á landi. Innrásarstríð Rússlands í Úkraínu hafði áhrif á EFTA-ríkin sem slitu samningaviðræðum við Rússland, Belarús og Kasakstan sem verið höfðu í biðstöðu frá árinu 2014. Íslands felldi einhliða niður tolla á allar innflutningsvörur frá Úkraínu og undirbúningurinn var hafinn við allsherjaruppfærslu fríverslunarsamnings EFTA og Úkraínu. Áfram er leitast við að tryggja íslenskum fyrirtækjum sem besta samkeppnisstöðu og liðka fyrir beinum samskiptum milli fólks, fyrirtækja og stofnana.

Þegar alþjóðasamfélagið glímir við nýjar og sögulegar áskoranir er mikilvægt að efla samskipti þjóða og hvetja til gagnkvæms skilnings á ólíkum menningarheimum. Borgaraþjónustan er veigamikill þáttur starfseminnar sem liðsinnir Íslendingum sem kjósa að búa eða ferðast erlendis. Í lok síðasta árs var opnað sendiráð í Póllandi og sendiskrifstofa Íslands í Vín gegnir nú aftur hlutverki sendiráðs í stað fastanefndar eingöngu og er þar um að ræða formbreytingu.

Forseti. Svo virðist sem tímar óvissu og umbrota í alþjóðamálum séu gengnir í garð. Á slíkum tímum skiptir miklu máli að vandlega sé hugað að stöðu Íslands í heiminum. Frelsi Íslands og fullveldi raungerist einkum í þeirri staðreynd að við eigum stað meðal annarra þjóða í heiminum. Því fylgja skyldur, ekki síður en réttindi. Það á því að vera viðvarandi metnaðarmál að staðið sé vel og fagmannlega að allri framgöngu Íslands á alþjóðlegum vettvangi, og gæta vel að hagsmunum Íslands og orðspori um heim allan. Með því að Ísland sé ávallt verðugt og áreiðanlegt samstarfsríki er hagsmunum okkar best borgið.