Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[14:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum verið með stefnu í gildi frá 2019 og til ársins í ár þar sem stefnt var að því að framlög Íslands til þróunarsamvinnu yrðu 0,35% af vergum þjóðartekjum árið 2022. Við höfum náð því og ég hef lagt áherslu á að staðið verði við það. Við höfum líka sagst vilja ná markmiði Sameinuðu þjóðanna um 0,7% sem fæli auðvitað í sér gríðarlega mikla hækkun. Til samanburðar má nefna að meðaltal framlaga aðildarríkja þróunarsamvinnunefndar OECD fyrir 2021 er 0,33% af vergum þjóðartekjum. Núna er fjármálaáætlunarvinnan einfaldlega í gangi og ég get ekki tjáð mig um hvernig niðurstaðan mun líta út fyrr en þeirri vinnu lýkur. Hins vegar nefni ég að við erum núna að vinna að endurskoðun þróunarsamvinnustefnu fyrir okkur til ársins 2028 og ég finn ekki fyrir öðru en þverpólitískum stuðningi við að við setjum markið hærra þegar kemur að prósentuhlutfalli af vergum þjóðartekjum. Ég vil þó nefna að heilt yfir finnst mér slíkar prósentutölur af vergum þjóðartekjum ekki besti mælikvarðinn en ég skil vel að þegar um er að ræða mjög ólík lönd sem eru að koma sér saman um einhver markmið þá er þetta ákveðinn grunnur sem við getum þá sameinast um. Þrátt fyrir að við myndum standa við 0,35% núna þá myndi það, bara með tilliti til umsvifa í hagkerfinu, leiða af sér fleiri milljónir í málaflokkinn fyrir verkefni sem þurfa sárlega á fjármagni að halda.