Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[14:36]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er von mín að við sjáum einhverja hækkun í öllum þessum áætlunum; þróunarsamvinnuáætluninni, fjármálaáætluninni og öðru. Mig langaði í seinni spurningunni að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sjái fyrir sér möguleika fyrir Ísland að taka aukinn þátt í mannúðarstarfi. Nú hefur það verið þannig að Íslendingar hafa verið sendir utan á vegum Sameinuðu þjóðanna. Við sendum hóp til Tyrklands nú fyrir stuttu sem tók að sér samhæfingu allra alþjóðabjörgunarsveita á svæðinu. Við erum líka í samstarfi við ESB um mannúðarstarf. Sér ráðherra fram á að það sé hægt að nýta betur þá þekkingu sem íslenskir sérfræðingar hafa á þessu sviði, (Forseti hringir.) hvort sem er innan þessara aðila sem ég nefndi eða innan t.d. þeirra frjálsu félagasamtaka sem stunda mannúðarstarf?