Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[15:14]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Við höfum svo sem tekið þetta fyrir hér áður í þingsal. Hvað sér þingmaðurinn fyrir sér að bætist við með Evrópusambandinu varðandi varnirnar í stóru myndinni? Við vitum að 80% af því fjármagni sem fer til varnar- og öryggismála innan NATO koma frá þeim ríkjum sem eru utan evrusvæðisins en innan Atlantshafsbandalagsins. Þegar Finnar og Svíar verða komnir inn í NATO þá verða 23 af 27 ríkjum Evrópusambandsins hluti af NATO. Það verða bara Írland, Austurríki, Malta og Kýpur sem verða ekki innan NATO af Evrópusambandsríkjunum. Í dag er það þannig að um 80% af því fjármagni sem er varið til þessara mála innan NATO koma frá löndum utan Evrópusambandsins og 20% frá Evrópusambandsríkjunum sem eru hluti af bandalaginu. Því væri fróðlegt að vita hvernig hv. þingmaður sér þetta fyrir sér.

Ég hef sjálfur litið töluvert til þess að við værum að styrkja sem mest samvinnuna yfir Norður-Atlantshafið með okkar stöðu hér, þessari gríðarlega mikilvægu landfræðilegu stöðu sem Ísland hefur með tengingunni á milli Ameríku, og þar með Bandaríkjanna og Kanada, og Evrópu. Við sjáum núna að það nýjasta sem er að gerast er að Bretar eru að senda sveit til Norður-Noregs og ætla að vera með þjálfun þar og ná tengingu og Bandaríkjamenn byrjuðu fyrir nokkru með slíka tengingu við landgöngusveitir í Noregi.

Hvað sér hv. þingmaður helst fyrir sér varðandi Evrópusambandið og það að styrkja varnir við Íslandsstrendur?