Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[15:18]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Síðastliðið haust var ég á ráðstefnu á vegum NATO-þingsins í Helsinki og þar var gestur fundarins og ræðumaður Pekka Havisto, utanríkisráðherra Finnlands. Hann var einmitt spurður á þeirri ráðstefnu að því af hverju Finnar vildu komast í NATO, hvort Evrópusambandið myndi ekki duga vörnum landsins. Þá var vísað til 42. gr. Lissabon-sáttmálans þar sem kemur fram að komi sú staða upp að aðildarríki Evrópusambandsins verði fyrir vopnaðri árás á eigin landsvæði þá séu önnur aðildarríki sambandsins skyldug til að rétta fram aðstoð eftir fremsta megni. Hann gaf ekki mikið fyrir þessa grein í sínum vörnum. Ég vildi koma þessu að, af því að þessi umræða spannst kannski út frá varnar- og öryggismálum í umræðunni áðan, eða ég skildi hana þannig. (Forseti hringir.)

Ég tek hins vegar undir sjónarmið hv. þingmanns varðandi lýðræði í heiminum. Þarna eru helstu stofnanir á bak við lýðræðið, þ.e. NATO, Evrópusambandið, Sameinuðu þjóðirnar og slíkar stofnanir.