Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[16:14]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Það er alveg hægt að segja að við séum hjartanlega sammála þegar kemur að þessum málum. Mig langaði að benda hæstv. ráðherra á að það var gerð skýrsla og rannsókn, ætli það séu ekki komin alveg tíu ár síðan, af Stanford-háskóla þar sem það var skoðað hvað gerist þegar samstarf á sér stað á sviði hjálparstarfs og mannúðar- og þróunarsamvinnu. Það sem þau komust að var að þegar tveir eða fleiri aðilar vinna saman þá er útkoman ekki jöfn samlegð þessara tveggja. Það er eitthvað skrýtið sem gerist þegar samvinna fer í gang, einn plús einn er ekki lengur tveir heldur stundum þrír eða fjórir og það er vegna samstarfsins. Það er vegna þess að allt í einu getum við gert meira og við getum unnið betur saman. Ég hvet ráðherra eindregið til þess að horfa til þessa samspils. Rannsóknir sýna að það virkar.

Varðandi umræðuna um alþjóðlegan björgunarskóla þá fagna ég því að heyra að hæstv. ráðherra tekur vel í það og ég vona að við í utanríkismálanefnd tökum einnig vel í það og afgreiðum það til ráðherra sem fyrst til að skoða betur.