Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

NATO-þingið 2022.

648. mál
[18:41]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þessa þingmannanefnd NATO-þingsins og Úkraínu, þá hefur hún verið starfandi að ég held í 10, 15 ár. Það var ekki stofnað til hennar sérstaklega út af innrás Rússlands en vinsældir hennar hafa alla vega aukist frá því sem áður var. Nú er fullskipað á fundum hennar en fyrir nokkrum árum var bekkurinn kannski aðeins þunnskipaðri þegar hún hittist. Ég þurfti nú ekki að ganga í Íslandsdeild NATO-þingsins til að móta mér upplýsta afstöðu til Atlantshafsbandalagsins. Ég hef haft áhuga og gott ef ég er ekki með eina meistaragráðu í málaflokknum. Því byggði andstaða mín við veru Íslands í NATO á jafn upplýstri afstöðu og ég hef í dag og hún hefur ekkert breyst. Ég tel að Ísland sem boðberi friðar og jafnréttis á heimsvísu eigi ekki að taka þátt í hernaðarbandalögum. Mér finnst það bara ekki passa og breytir þá litlu hvort ég sé með hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni í Íslandsdeild eða ekki. Sama hvað formaður Varðbergs hefur reynt að selja mér hugmyndina þá hefur það ekki borið árangur enn.