131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[15:47]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Sú óhjákvæmilega og sjálfsagða hagræðing sem felst í því að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur mun leiða til þess að þriðjungs samdráttur verður í innanlandsflugi. Það þýðir að 200 farþegar hvora leið til Reykjavíkur þurfa að leita annarra leiða; þeir munu aka, sigla, fljúga á Bakka, hringja eða halda fjarfundi til að leysa erindi sín. Á móti kemur að nærfellt 20 þúsund manns fá tækifæri til að búa og starfa í miðborg Reykjavíkur á hverjum degi.

Í dag er lóð undir óbyggða íbúð í Norðlingaholti seld á 6–17 millj. kr. stykkið. Það lýsir þörfinni fyrir byggingarland í Reykjavík. Með því að opna Vatnsmýrina sem byggingarland fyrir ungu kynslóðina stóraukum við lóðaframboð og gefum unga fólkinu tækifæri til að búa þar sem best er á Íslandi, í Vatnsmýrinni.

Til sátta við landsbyggðina legg ég til að söluandvirði af landareignum ríkisins í Vatnsmýrinni, allt að 10 milljörðum kr., verði varið til að efla byggðarlögin á Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og Vestmannaeyjum (Gripið fram í.) eða nærfellt ein millj. kr. fyrir hvert heimili á þessum svæðum. Með því frumkvæði mundi Alþingi leitast við að mæta bæði sjónarmiðum og þörfum landsbyggðarinnar annars vegar og borgarinnar hins vegar, en ekki annars á kostnað hins.

Haldi menn áfram að hrekjast undan í varnarbaráttu fyrir flugvellinum í Vatnsmýrinni munu lögmál markaðarins og myllur sögunnar mylja hann undir sig, vegna þess að frá þessum degi mun þróunin aðeins verða sú að landverð í Vatnsmýri hækkar, samgöngur á landi og sjó við landsbyggðina batna, þörf fyrir ný atvinnuúrræði í Keflavík vaxa, þörf fyrir hagræðingu í flugvallarrekstri í landinu aukast og þrýstingurinn á land fyrir nýja byggð í miðborg Reykjavíkur mun vaxa og allt mun þetta samverka til þess að sú sjálfsagða hagræðingarleið verði farin að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur þar sem það á heima.