131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

215. mál
[18:31]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum í 2. umr. frumvarp til laga um breytingu á fernum lögum um stjórn fiskveiða og tengdum lögum. Hv. framsögumaður og formaður sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, fór vel yfir nefndarálitið sem er að mestu leyti samstaða um í nefndinni. Eins og hann fór yfir er tilgangur frumvarpsins að fella alveg niður lágmarkssektarákvæði úr þeim lögum sem um ræðir þannig að dómurum væri gefinn möguleiki á því við smávægileg brot eða brot framin af gáleysi að dæma menn í lægri sektir jafnvel þó að fyrir lægi að sekt væri sönnuð þannig að dómari sé ekki bundinn af því að verða við smávægilegt brot að dæma menn í 400 þús. kr. lágmarkssekt.

Þetta þóttu flutningsmanni frumvarpsins, hv. 1. varaþingmanni Samfylkingarinnar í Norðaust., Örlygi Hnefli Jónssyni, vera ólög. Kannski vegna þess að hann hafði rekist á það í starfi sínu að þrátt fyrir að saksóknari, verjandi og dómari væru allir sammála um að brot sem við blasti og verið væri að dæma í væri smávægilegt og oft og tíðum jafnvel framið af algjöru gáleysi var ekki um annað að ræða en að dæma sakborninginn í 400 þús. kr. sekt vegna þess hvernig lögin eru og hafa verið.

Nefndin fór yfir þetta allt saman, kallaði eftir umsögnum eins og venja er og kallaði menn á sinn fund til að ræða þetta. Í stuttu máli má segja að niðurstaða nefndarinnar hafi orðið sú að fella niður lágmarksrefsingar í fyrsta broti viðkomandi. Ef einhver bryti af sér smávægilega, jafnvel af gáleysi, í fyrsta skipti hefði dómari heimild til að ákvarða sekt fyrir það brot og yrði ekki að dæma 400 þús. kr. lágmarkssekt eins og þarf að gera í dag, heldur mundi dæma út frá eðli brotsins hver sektin ætti að vera, hvort hún ætti að vera 10 þús., 20 þús., 30 þús. eða eitthvað slíkt en dómarinn væri ekki bundinn af lágmarkssektarákvæði laga.

Menn voru jafnframt sammála um það, eftir að hafa farið í gegnum þetta og rætt fram og til baka, að það væri kannski ekki alveg rétt að fella niður lágmarkssektarákvæði fyrir annað brot, fyrir ítrekað sama brot og viðkomandi hefði kannski verið dæmdur fyrir í fyrsta skipti. Ég tek undir með hv. formanni nefndarinnar þegar hann ítrekaði að með sama broti eða ítrekuðu broti væri átt við sams konar brot en ekki annað brot á sömu lögum. Menn þurfa því að vera uppvísir að sama broti í annað skipti til að ítrekunarákvæði fari að virka.

Í dag er það þannig í lögunum að fyrsta brot er að lágmarki til 400 þús. kr. sekt og annað brot 800 þús. kr. sekt. Reyndar eru í tveimur af lagabálkunum ekki nein ákvæði um ítrekuð brot í dag heldur eingöngu lágmarkssekt upp á 400 þús. kr., en með breytingartillögu sjávarútvegsnefndar er lagt til að við samræmum öll lögin og engin lágmarkssekt verði fyrir fyrsta brot í þeim öllum en það verði lágmarkssekt að upphæð 400 þús. kr. fyrir ítrekað brot og þá eins í öllum lögunum.

Ég held að ef frumvarpið nái í gegn sé þetta talsvert mikil lagabót frá þeim lögum sem við höfum í dag. Ef við horfum á lögin er það stílbrot að mörgu leyti og óvenjulegt að lágmarkssektarákvæði skuli vera inni, vegna þess að það finnum við yfirleitt ekki í öðrum lögum nema um sé að ræða meiri háttar brot, að löggjafinn hafi talið að brotin væru það mikil að gefa yrði dómurum einhver fyrirmæli um hver lágmarksrefsing eða lágmarkssekt ætti að vera fyrir brotin og leggja þannig áherslu á að þetta séu verulega þung brot á lögum.

Umsagnir bárust okkur í nefndinni frá Landssambandi smábátaeigenda og þeir voru sammála ákvæði frumvarpsins að fella niður lágmarkssekt. Það sama gerðist með Vélstjórafélag Íslands. Ríkissaksóknari leyfði sér að benda á hvort ekki ætti að afnema hámarkssektarákvæði ef menn ætluðu að fara í að fella niður lágmarkssektarákvæði. Landssamband íslenskra útvegsmanna fagnaði framlagningu frumvarpsins og var sammála því sem þar kemur fram og stjórn Sýslumannafélags Íslands tekur undir þá breytingu sem frumvarpið boðar, að afnema lágmarkssektarfjárhæð. Að endingu sagði ríkislögreglustjóri, með leyfi forseta:

„Af hálfu efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjórans er ekki gerð athugasemd við þá breytingu sem frumvarpið felur í sér. Á það skal bent að ákvæði ofannefndra laga um refsilágmark er undantekning sem á sér fá fordæmi í sérrefsilöggjöf.“

Það má því segja að þetta hafi nánast verið samhljóða umsagnir sem við fengum frá umsagnaraðilum og sýnir kannski betur en margt annað að það sem verið er að leggja til í frumvarpinu eru réttarbætur frá því sem nú er. Ég tek undir með hv. formanni sjávarútvegsnefndar að ég vonast til þess að eftir 2. umr. takist okkur að ljúka málinu og gera það að lögum nokkuð fljótlega.

Það er rétt sem fram kom í framsögunni að þegar nefndin var að ræða þetta fram og til baka og velta fyrir sér hvernig við afgreiddum þetta út vorum við í góðu sambandi við 1. flutningsmann frumvarpsins, hv. varaþingmann Örlyg Hnefil Jónsson. Ég held að ástæðan fyrir því að frumvarp frá stjórnarandstöðuþingmanni sé komið þetta langt sé sú að margir flutningsmenn eru á frumvarpinu sem hv. þingmaður lagði fram, úr öllum flokkum og hefur náðst nokkuð þverpólitísk samstaða um að fara þessa leið. Ég held að það sýni enn og aftur hvað hér er um mikið réttlætismál að ræða að svo margir hv. þingmenn voru tilbúnir að setja nafn sitt á frumvarpið með hv. þm. Örlygi Hnefli Jónssyni.

Ég fagna því að málið sé komið þetta langt og vona að við náum saman um að gera frumvarpið að lögum á næstu dögum.