132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[16:46]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég bar upp spurningu fyrr í umræðunni um fundarstjórn forseta, hvort hæstv. forseti ætlaði að fresta fundum til þess að orðið væri við þeirri ósk sem fram hefur komið í máli margra hvað varðar að halda fund með formönnum stjórnmálaflokkanna til að greiða megi fyrir þingstörfum. Það væri fróðlegt að fá að vita hvort hæstv. forseti ætlar að taka afstöðu til þeirrar óskar.

Það virðist ekki vera. En ég ætla ekki eingöngu að gera fundarstjórn forseta að umtalsefni heldur einnig það sem hefur komið fram í máli manna hér, sem að mínu mati hafa farið nokkuð vítt og breitt og ef til vil rangtúlkað það sem kom fram á fundi iðnaðarnefndar þingsins í morgun. Ég vil fyrst nefna ódýran málflutning hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar þegar hann greinir frá því að upplýst hafi verið að það sem fram kemur í þessari ágætu vatnatilskipun komi málinu ekki við. En ríkisstjórnin vill samt ekki fyrir nokkra muni leiða umrædda vatnatilskipun fram og gera að lögum fyrr en einhvern tíma síðar. Að vatnatilskipunin komi málinu ekki við er einfaldlega ekki rétt hjá hv. þingmanni, um það mál hefur komið fram mikill ágreiningur.

Það var vísu sérfræðingur ráðuneytisins sem hélt þessu fram en hann er auðvitað undir hælnum á hæstv. umhverfisráðherra. Hjá sérfræðingi á vegum Umhverfisstofnunar kom það hins vegar skýrt og skorinort fram að þeir hefðu í engu breytt afstöðu sinni til þess að vatnatilskipunin komi málinu við. Enda hvernig má annað vera þar sem vatnatilskipunin fjallar um mengunarvarnir og verndun lífríkisins? Og að heyra hv. þm. eins og Sigurð Kára Kristjánsson koma hér og segja að mengunarvarnir og verndun vistkerfisins komi náttúruvernd ekkert við. Ég veit ekki hvernig menn ætla að hártoga hlutina en mér finnst þetta vera mjög ódýr málflutningur og lýsa í hnotskurn hvernig búið er um hnútana í þessu máli.

Í umræðunni fyrr í dag kom fram að menn hafi verið sakaðir um falsanir. Ég vil minna á að þetta frumvarp sem við erum að ræða hér — og ég legg eindregið til við hæstv. forseta að hann taki það af dagskrá — var lagt fram á fölskum forsendum. Þegar það var lagt fram var sagt að það væri í samráði við stofnanir umhverfisins. Það er alrangt. Það hefur komið fram í gögnum. Þeir einu sem virðast vera nokkuð sáttir við þetta frumvarp eru úr orkugeiranum. Alls ekki bændur. Það ætti að vera íhugunarefni fyrir Framsóknarflokkinn og hv. þm. Birki Jón Jónsson, formann iðnaðarnefndar. Það er margt sem bendir til að þetta frumvarp (Forseti hringir.) gangi algerlega á rétt bænda til að nýta veiði í ám (Forseti hringir.) og að verið sé að útþynna netlög, eins og fram kemur í umsögn bænda um frumvarpið. (Forseti hringir.)