136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

setning neyðarlaganna.

[10:41]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég skil mætavel að hæstv. dómsmálaráðherra vilji ekki fella dóma í þessum sal enda er það ekki hlutverk hennar. En ég vil halda aðeins áfram með þetta mál vegna þess að í 6. gr. neyðarlaganna var rétthæð krafna riðlað þar sem innstæðueigendur voru teknir fram fyrir aðra kröfuhafa í röðinni og þar er m.a. um að ræða erlenda kröfuhafa sem áttu mikilla hagsmuna að gæta. 6. gr. varð þannig afturvirk og stórkostlega íþyngjandi án þess að minnst væri á stjórnskipulegan neyðarrétt eða þessi grein skýrð að neinu leyti í lögskýringargögnum.

Almennt er talið að þegar úrlausnir vegna afturvirkra laga koma til skoðunar sé um annað tveggja að ræða, að þeim er vikið til hliðar eða þau teljast standast gegn því að bætur séu greiddar. Þá verður ekki séð að málefnaleg rök liggi að baki þessari riðlun rétthæðar krafna og ekki verður séð að eðlilegt samræmi sé á milli þess markmiðs sem stefnt er að og þeirra aðferða sem notaðar voru. Því langar mig til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra aftur annarrar spurningar sem varðar það hvort hún telji ekki eðlilegt að við setjum eitthvert ákvæði um stjórnskipulegan neyðarrétt í nýja stjórnarskrá þegar við skrifum hana á komandi mánuðum.