136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

umferðaröryggismál.

[10:45]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál hér upp en til að bæta því við sem ekki kom fram í ræðu hans, þá var það við gerð fjárlaga í tíð síðustu ríkisstjórnar sem þurfti að skera niður í samgönguráðuneytinu, eins og öðrum ráðuneytum. Þar var skorið niður framlag til Umferðarstofu og ýmissa annarra stofnana á vegum samgönguráðuneytisins. Hins vegar var það frá fjármálaráðuneyti gert að svokallað umferðaröryggisgjald eða ígildi þess, 70 millj. kr., var fært til og tekið út. Með það höfum við unnið síðan.

Ég vil taka skýrt fram, virðulegi forseti, að engin ákvörðun hefur verið tekin um að skera niður fjárveitingar til áróðursmála, ef ég má nota það orð, auglýsinga og annars slíks. Svokallað umferðaröryggisráð, sem í eru ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytisins, vegamálastjóri, ríkislögreglustjóri og forstjóri Umferðarstofu, hefur fundað um málið og þar náðist ekki samkomulag um leiðir. Allir pössuðu sitt og enginn vildi láta neitt frá sér. Tökum sem dæmi umferðareftirlitsmál, sem eru inni með 76 millj. kr., ákveðinn aðili vildi ekki hreyfa það. Til að útrýma svartblettum voru 250 milljónir inni, ákveðinn aðili vildi ekki hreyfa það. Málinu er því ekki lokið.

Þess vegna finnst mér mjög alvarlegt hvernig forustumenn Umferðarstofu geystust fram með málið til að skapa umræðu og óþarfa ótta. Virðulegi forseti, þess vegna segi ég að málinu sé ekki lokið og sennilega stendur nákvæmlega núna yfir fundur í umferðaröryggisráðinu til að fara yfir þetta og vega það og meta.

Það er rétt sem hefur komið fram að á síðasta ári og síðustu ár hefur í (Forseti hringir.) kringum 70 millj. kr. verið eytt í áróðursmál í fjölmiðlum. (Forseti hringir.) Ég kem kannski betur að því í seinna svari mínu.