136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

umferðaröryggismál.

[10:49]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Bara til að halda því til haga, þá er við allar nýframkvæmdir við hönnun auðvitað horft til þess að gæta að umferðaröryggismálum og fjölmargar framkvæmdir í hinni stóru samgönguáætlun eru framkvæmdir þar sem verið er að taka á öryggismálum.

Svo ég klári það sem ég ætlaði að segja hér áðan, virðulegi forseti, þá hefur þetta snúist um þær 70 milljónir sem eytt var í áróðursmál, auglýsingar og annað slíkt. Þær hafa skipst þannig, ef ég man rétt, á síðasta ári og undanfarin kannski tvö ár, að einum 25–30 milljónum hefur verið varið í hönnun og gerð auglýsinga á hönnunarstofum o.s.frv. Hitt hefur svo verið sett í fjölmiðla í auglýsingakostnað, skipt niður á blöð og ljósvakamiðla.

Athyglisvert er, virðulegi forseti, að á fundi í gær kom fram í ráðuneytinu frá einum aðila frá Umferðarstofu að það sem gert var fyrir 70 milljónir árið (Forseti hringir.) 2008 væri kannski hægt að fá gert fyrir 25–30 milljónir í ár. (Forseti hringir.) Það voru athyglisverðar upphæðir ef allt í einu er hægt að spara einar 40 millj. kr.