136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[14:33]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsögu hans um þetta mál. Ég hef áður staðið hér í þessum ræðustól og talað fyrir þessu máli og ég fagna því að þetta sé komið fram í þeirri mynd sem það birtist okkur hér. Reyndar á vinnan við þetta frumvarp sér allnokkurn aðdraganda, allt aftur til október á síðasta ári þegar ég tók sæti í vinnuhópi á vegum þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, ásamt tveimur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í síðustu ríkisstjórn þar sem skoðaðar voru tilteknar leiðir til bjargar heimilum í þeim fjárhagsvanda sem blasti við mörgum þeirra í kjölfar bankahrunsins.

Þar kom fyrst fram sú hugmynd að í vissum tilfellum væri hægt að heimila fólki að taka út séreignarlífeyrissparnaðinn ef það stæði illa. Þegar málið er síðan frekar skoðað sést að tæplega 300 milljarðar kr. liggja í séreignarlífeyrissparnaði í dag. Auðvitað eru sparnaðarleiðirnar sem í boði eru mjög mismunandi. Þar sem þetta sparnaðarform hefur ekki verið til mjög lengi, ég hygg að það hafi verið til í um 10 ár, er staðreyndin sú að flestir þeir einstaklingar sem þarna hafa greitt inn og eiga fjármuni eiga ekki háar upphæðir. Að meðaltali eru þetta 2–2,5 millj. kr. sem einstaklingar eiga þarna þó að auðvitað séu dæmi um að menn eigi hærri upphæðir, allt upp í 10–15 millj. kr.

Ég verð að segja að ég fagna þeirri samstöðu sem hefur birst hér í umræðunni um þetta meðal þingheims alls, ekkert síður af hálfu þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem hér hafa talað þó að menn greini kannski aðeins á um útfærsluna. Sú sem hér stendur getur fúslega játað að hún hefði að sjálfsögðu kosið að það hefði verið hægt að ganga lengra en hér er gert.

Eins og hæstv. fjármálaráðherra gerði ágætlega grein fyrir hér í ræðu sinni er auðvitað að mörgu að hyggja og það þarf að huga að því hvernig sjóðirnir standa eftir að þessi heimild er veitt. Það þarf að taka ábyrgt á þessu. Við ætlum okkur ekki að setja þetta kerfi á hliðina og við ætlum okkur líka að gæta þess að jafnræði gildi milli sjóðfélaga. Ég held að það sé óhætt að segja að hér sé farin mjög varfærin og ábyrg leið en um leið komið til móts við þá einstaklinga og þær fjölskyldur sem þurfa á þessum fjármunum að halda.

Það ber auðvitað að ítreka hér í umræðunni að þetta sparnaðarform er mjög hagstætt. Á undanförnum árum hafa þeir fjármunir sem fólk hefur sett þarna inn ávaxtað sig vel. Ég hygg að í sumum tilfellum hafi ávöxtunin verið allt upp í 20 eða jafnvel 30%. Það er því engin ástæða fyrir fólk sem ekki þarf á þessum fjármunum að halda að innleysa þá. Ég held að það skipti afar miklu máli að þau skilaboð komist skýrt til skila að það er ekki undir neinum kringumstæðum hagstætt fyrir fólk að innleysa fjármunina nema það þurfi á þeim að halda.

Það skiptir máli fyrir okkur sem hér störfum að sýna þá ábyrgð að um leið og við hugum að hagsmunum fjölskyldnanna í landinu hugum við líka að hagsmunum lífeyrissjóðakerfisins. Við ætlum okkur ekki að fara út í neinar þær aðgerðir sem geta sett það kerfi á hliðina eða stefnt því í nokkra hættu. Lífeyrissjóðirnir hafa vissulega bent á það að hér sé verið að teygja sig í raun og veru til hins ýtrasta.

Um helgina birtist grein í Morgunblaðinu frá fjórum framkvæmdastjórum lífeyrissjóða þar sem þeir bentu á að það yrði að fara varfærna leið til að standa vörð um þetta jafnræði og gæta þess að kerfið færi ekki á hliðina. Það er í raun og veru, hæstv. forseti, megininntakið í því sem hér er verið að gera.

Í 4. og 5. gr. frumvarpsins er lagt til að útgreiðslur séreignarsparnaðar komi ekki til skerðingar á barnabótum og vaxtabótum sem ég held að sé afar mikilvægt og síðan í 6. gr. er talað um atvinnuleysisbætur. Ég tek undir það með hæstv. fjármálaráðherra sem sagði áðan að við sérstakar aðstæður þyrfti að beita sérstökum úrræðum. Ég held að þetta sé afar mikilvægt.

Ég vil nefna í þessari umræðu að ég heyrði nýlega dæmi um að eftir að Alþingi breytti lögunum um síðustu áramót þar sem heimild var gefin fyrir þá sem eru orðnir 60 ára og eldri til að taka út séreignarlífeyrissparnað hafi einstaklingur lent í því að atvinnuleysisbætur skertust. Þær skertust við það að hann tók út séreignarsparnaðinn við 60 ára aldur, nokkuð sem viðkomandi hafði ekki gert ráð fyrir. Ég held að það sé afar mikilvægt að þetta ákvæði sé þarna inni vegna þess að það má alveg reikna með því að þeir sem helst mundu taka út þessa milljón núna á níu mánaða tímabili séu fólk sem er það illa statt að það sé hugsanlega orðið atvinnulaust og þess vegna er algjört glapræði að þessir fjármunir skerði atvinnuleysisbætur.

Ég lýsi líka yfir ánægju minni með þá heimild sem lífeyrissjóðunum er gefin í þessu frumvarpi til að fresta skattgreiðslum til ríkisins. Ég held að það muni líka koma til móts við sjóðina. Þarna er á ferðinni varúðarráðstöfun og allt miðar þetta að sama markinu, að tryggja bæði hagsmuni sjóðfélaganna og sjóðanna sjálfra.

Ég veit í sjálfu sér ekki, hæstv. forseti, hvort það er ástæða til að setja á miklu lengri ræðu, ég hef oft rætt um þetta mál hér áður. Ég ítreka að ég er mjög ánægð með að þetta mál skuli vera komið fram og ég er viss um að sú nefnd sem málið fer í mun vinna það mjög hratt og örugglega, ekki síst í ljósi þess stuðnings sem það hefur hlotið hér af hálfu flestra þeirra þingmanna sem til máls hafa tekið.

Ég ítreka líka að það er beðið eftir þessu máli þarna úti. Það er fullt af fólki sem bíður eftir því að Alþingi Íslendinga klári þetta mál hratt og örugglega, það komi til framkvæmda þannig að fólk geti farið að innleysa séreignarsparnaðinn sinn frá 1. mars nk.

Að því sögðu vil ég hvetja þá sem ekki þurfa á þessum fjármunum að halda að láta þá vera vegna þess að þarna er um afar gott sparnaðarform að ræða. Við þurfum auðvitað líka að standa hér vörð um og tryggja að séreignarlífeyrissparnaðarkerfi Íslendinga haldi áfram. Þetta skiptir máli þegar fólk hættir að vinna vegna þess að lífeyriskerfið almenna eins og við þekkjum það í dag tryggir um 50% af lokalaunum manneskju þegar hún hættir að vinna. Þetta er þá viðbót við það. Ef fólk fólk byrjar að greiða um fertugt og geymir sparnaðinn inni í 20 ár er þetta varasjóður fyrir fólk í ellinni, eins og verið hefur hefur þetta ávaxtað sig afskaplega vel.

Fólk á alls ekki að taka út þessa fjármuni nema það þurfi nauðsynlega á þeim að halda. Ég veit að mjög margir þurfa á þessu halda og bíða eftir að málið verði afgreitt hér. Ég held að við ættum því að hraða þessu í gegnum nefnd hér á Alþingi og taka þetta síðan inn þannig að þetta gæti orðið að lögum mjög fljótlega og komið til útgreiðslu 1. mars nk.