138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

skattahækkanir -- atvinnumál -- ESB.

[14:00]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir gagnrýni hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar á ríkisstjórnina og aðgerðaleysi í atvinnumálum og ég tek líka undir þakkir hans til hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar sem sagði áðan að þetta væri áfellisdómur yfir stjórnvöldum, svo ég noti hans orð. Hann talaði um að ríki og bæjarfélög eigi ekki að bregða fæti fyrir framkvæmdir og hvatti þing og þjóð til að standa saman og sýna samstöðu. Ég tek undir hvatningu hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar og þakka honum líka hreinskilnina vegna þess að þegar þingmaðurinn var á leið úr pontu var kallað til hans: Þú ættir að tala svona í þingflokknum. Þá sagði þingmaðurinn: Ég er alltaf að því. Það sýnir okkur hvað örvæntingin er orðin mikil og ég fagna því að það séu þingmenn innan Samfylkingarinnar sem hugsa á þennan hátt vegna þess að ég var farin að örvænta sjálf um að þá væri ekki að finna innan þessa þingflokks. Ég fagna því að þar séu þingmenn sem hafa áhuga á og áhyggjur af atvinnusköpun í landinu. Ég tek undir með þingmanninum að þessi ríkisstjórn er sífellt að bregða fæti fyrir öll þau endalausu tækifæri til atvinnusköpunar sem hér eru út um allt. Ég nefni síðasta dæmið sem snertir þó ekki stóriðju eða uppbyggingu orkufrekra mannvirkja og iðnaðar sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki getað komið sér saman um, það má ekki heldur koma með uppbyggingu í heilsutengdri starfsemi. Það er enn eitt tækifærið sem einstakir ráðherrar bregða fæti fyrir þannig að ég tek undir hvatningu og gagnrýni hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, ég hvet (Forseti hringir.) alla þingmenn, hvar í flokki sem þeir eru, til að tryggja að við nýtum tækifærið og sköpum (Forseti hringir.) atvinnu. Við þurfum á því að halda núna.