138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[16:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Hér erum við að gera mjög umtalsverðar breytingar á því frumvarpi sem var lagt fram af hæstv. ráðherra, mjög mikilvægar breytingar, breytingar sem ganga út á að við tryggjum að orð sem nú standa í samningum munu standa. Við erum að tryggja að þið vitið að það sem þeir skrifa þarna undir á að standa. Þeir hafa þrjú ár og eftir það verður þetta sett í lög, orð þeirra eiga að standa, þau eiga að hafa eitthvert gildi.

Þegar síðan er talað um að þetta sé íþyngjandi að einhverju leyti og menn hafa áhyggjur af eignarréttinum verð ég að segja að enn á ný erum við að fá sömu gömlu tugguna, sömu gömlu rökin frá Viðskiptaráði, það virðist sem það megi ekki vera nein takmörk á frelsinu í viðskiptalífinu, það má ekki að neinu leyti skerða þetta mikilvæga frelsi. Ég segi bara: Í dag erum við að reyna að byggja upp nýtt samfélag á nýjum gildum og nýjum forsendum og þetta er hluti af því.