139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

störf þingsins.

[14:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hef líkt skipan fulltrúa Vinstri grænna í landskjörstjórn á nýjan leik við það að þetta séu ekki ósvipuð vinnubrögð og notuð voru hér eftir hrun, aðaltopparnir hjá bönkunum voru skipaðir í slitastjórnir og skilanefndir. Þetta er svona svipað. (Gripið fram í: Er þetta nú …?) Ástráð Haraldsson þekki ég vel og hann er góður maður en hann var látinn axla ábyrgð fyrir heila ríkisstjórn. (Gripið fram í: Er þetta nú maklegt?)

Það sem ég ætlaði hér að tala um var sá farsi (Gripið fram í: Þetta er ómaklegt.) [Kliður í þingsal.] sem alltaf viðgengst, (Forseti hringir.) að Evrópusambandið — fæ ég hljóð? (Utanrrh.: Leyfið þingkonunni að tala.) Það er sagt að Evrópusambandið ásælist ekki auðlindir landsins. Það er mjög einkennilegt vegna þess að um ákvæði auðlinda hvers ríkis gilda ákvæði innri markaðar Evrópusambandsins er varða fjárfestingar, samkeppnismál, umhverfismál o.fl. þannig að óbeint hefur Evrópusambandið ítök í öllum auðlindum landanna.

Ég beindi fyrirspurn til utanríkisráðherra um það hvort íslensk stjórnvöld hefðu skilgreint gagnvart Evrópusambandinu hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar þær eru. Svarið barst í gær og svo er ekki. Við vitum að Evrópusambandið hefur ekki skilgreint hvað náttúruauðlindir eru nema í einum og einum lagabálki og það höfum við Íslendingar ekki heldur gert. Þess vegna er þetta allt saman opið og ég ætla að leyfa mér að lesa hér upp úr þessu áliti, með leyfi forseta:

„Að svo komnu máli hefur hvorki verið talin þörf á að skilgreina sérstaklega gagnvart Evrópusambandinu hvað Íslendingar telja flokkast til auðlinda né hverjar þær eru í samhengi samningaviðræðnanna.“

Við skulum alveg átta okkur á því að hér er orðið forgangsatriði að við sem þjóð skilgreinum hverjar auðlindir okkar eru í lofti, á láði og legi áður en lengra er haldið með þessa aðildarumsókn að Evrópusambandinu. (Forseti hringir.) Ég skora á ríkisstjórnina að gera eitthvað í þessum málum því að annars vitum við hvar þetta endar. Það endar í Brussel.