139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

þingsályktunartillaga um skipun stjórnlagaráðs.

[16:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði bara að bregðast við einu atriði í ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar sem mér fannst pínulítið villandi. Hann var dálítið óheppinn með það dæmi sem hann tók í ræðu sinni þegar hann vísaði til afdrifa fjölmiðlalaga 2004. Þar var nefnilega um það að ræða að lögin voru felld úr gildi. Ef þáverandi stjórnarmeirihluti eða meiri hluti Alþingis hefði ætlað að fara á svig við þá atburðarás eða þá ákvörðun sem fyrir lá á þeim tíma hefði stjórnarmeirihlutinn væntanlega fundið leið til þess að láta fjölmiðlalögin standa samt. Það er akkúrat það sem gerist í þessu máli, (Forseti hringir.) það er komin niðurstaða frá Hæstarétti og leiðin sem hér er valin gengur út á það að þrátt fyrir ógildingu kosninganna eiga niðurstöður þeirra að standa.