139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef spurningunni væri beint til mín sem lögfræðings um það hvort ég héldi að val samkvæmt þeirri tillögu sem hér liggur fyrir mundi halda fyrir dómstólum er sennilega rétt að þessi niðurstaða gæti haldið fyrir dómstólum. Ég held að það séu ekki lagalegar forsendur til að segja að samþykkt þessarar tillögu sem slíkrar væri brot á stjórnarskránni. Hins vegar er svipurinn á þessu alveg afkáralegur vegna þess að Alþingi felur Hæstarétti að fjalla um kærumál og ákvarða um lögmæti kosninga, vissulega kosninga sem ekki eru stjórnarskrárbundnar en kosningar samt. Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að kosningarnar séu ógildar. Alþingi tekur þá ákvörðun um að breyta nafni fyrirbærisins sem kjósa á til og velur sama fólk til að sinna sama verkefni, væntanlega á sömu kjörum og allt, og lætur þar með eins og ógilding kosninganna hafi aldrei átt sér stað. Mér finnst það afkáraleg, ég er ekki að segja að það yrði dæmt ólögmætt í dómstólum.