139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:09]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að mótmæla mjög ákveðið þeim fullyrðingum hv. þingmanns að með tillögunni sé farið að niðurstöðu Hæstaréttar sem ógilti kosningarnar til stjórnlagaþinga. Í rauninni eru slíkar fullyrðingar einhver mestu öfugmæli sem ég hef heyrt í þessum sal, hef ég þó heyrt ýmislegt hér. Ekki er farið að niðurstöðu Hæstaréttar með þessum tillöguflutningi. Niðurstöður Hæstaréttar eru hafðar að engu og farið á svig við niðurstöður æðsta dómstóls landsins af tillöguflytjendunum þremur, hv. þingmönnum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvernig hún telji að á því standi að tveir lagaprófessorar við lagadeildir háskólanna lýsi því yfir opinberlega að þessi leið feli í sér að farið sé á svig við niðurstöður Hæstaréttar. Man hv. þingmaður eftir því þegar hv. allsherjarnefnd fundaði í kjölfar kosninganna og lagaprófessorarnir tveir, Róbert Spanó og Ragnhildur Helgadóttir að viðbættum Eiríki Tómassyni, prófessor í stjórnskipunarrétti við lagadeild Háskóla Íslands, vöruðu nefndina við að fara þá leið sem hér er lagt til að farin verði?

Í ljósi yfirlýsinga hv. þingmanns vil ég spyrja: Hvers vegna skyldi hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson, æðsti maður dómsmála í landinu, lýsa því yfir að honum hugnist ekki þessi leið vegna þess að við eigum að hlýta niðurstöðu Hæstaréttar hvað sem okkur finnst um hana, það dugi engin skemmri skírn? Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir auðvitað að (Forseti hringir.) allir málsmetandi menn sem með málinu fylgjast eru sammála um að í tillögunni felist ekkert annað en að sniðganga niðurstöðu Hæstaréttar og í rauninni er rétturinn svívirtur með þessu.