141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Það er mörg umræðan sem hægt er að blanda sér inn í hérna. Ég ætla að koma aðeins inn á það sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók upp og fleiri hafa gert að umtalsefni, að seðlabankastjórinn hafi enn á ný gengið í lið með hæstv. fjármálaráðherra og talað niður gjaldmiðil þjóðarinnar. Ég vil minna á að fulltrúar allra flokka hafa skrifað undir og viðurkennt að gjaldmiðillinn til næstu ára verður íslenska krónan. Það mundi ekki líðast í nokkru öðru vestrænu ríki að seðlabankastjóri þjóðarinnar og fjármálaráðherrann, sem báðir hafa það að atvinnu að halda utan um gjaldmiðilinn og styrkja hann, tali með þessum hætti.

Maður heyrir það meðal annars hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni að þarna ráða flokkshagsmunir umfram þjóðarhagsmuni. Það er mjög alvarlegt þegar farið er fram með þessum hætti. Þegar menn tala um atvinnulífið í þessu sambandi er fróðlegt að skoða nýlega skýrslu, Global Competitiveness Report, sem fjallar um það hvaða áhrif og hvaða þættir hafa verið neikvæðir fyrir atvinnulífið á síðustu fjórum árum. Það er annars vegar vaxandi pólitískur óstöðugleiki og hins vegar skattumgjörð og tíðar skattkerfisbreytingar á atvinnulífið. Hvað þann þátt snertir er Ísland komið niður í 119. sæti, niður fyrir ríki eins og Mósambík, Simbabve og fleiri. Annar þáttur er aukin skriffinnska og óskilvirkt embættismannakerfi. Hvað hefur ríkisstjórnin gert til þess að liðka til hvað þessa þætti snertir? Auðvitað ekki nokkurn skapaðan hlut. Þess vegna erum við að falla á þessum listum.

Ég vil fagna því að hv. þm. Skúli Helgason hafi talað um að við ættum að fara að skoða með hvaða hætti er hægt að taka á verðtryggingunni. Ég vil hvetja ríkisstjórnina, eins og ég hef gert hér áður, og hv. þm. Skúla Helgason til þess að veita því forustu (Forseti hringir.) að þetta verði eitt af forgangsverkefnum síðustu tvær vikurnar á þinginu þannig að það sjáist á borði (Forseti hringir.) en ekki bara í orði.