141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

viðbrögð við fjölgun ferðamanna á Íslandi.

[15:41]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er ef til vill undarleg staðreynd en engu að síður gild að gos í Eyjafjallajökli, sem stóð frá 14. apríl 2010 til 23. maí sama ár og hamlaði flugferðum hundruð þúsunda ferðamanna, hefur reynst eitthvert mesta lán í sögu íslenskrar ferðaþjónustu. Gosið vakti gríðarlega athygli og áhuga á náttúru Íslands en mestu skiptir að viðbrögð íslenskra stjórnvalda og ferðaþjónustunnar við hamförunum voru hárrétt. Markaðsátakið Ísland allt árið var sett af stað til þriggja ára og athyglin var vel nýtt.

Fyrir gosið hafði Ferðamálastofa spáð 8,3% árlegri aukningu ferðamanna til Íslands sem hefði að öllu óbreyttu þýtt að 1,2 milljónir ferðamanna legðu leið sína til Íslands árið 2020. Mörgum fannst nóg um þá tölu og spurðu: Getur náttúra landsins tekið á móti slíkum fjölda? Með öðrum orðum: Ráða innviðirnir við meira en tíföldun ferðafólks á þremur áratugum og tvöföldun bara á síðasta áratug?

Nú er ljóst að spár síðustu ára um fjölgun ferðamanna til landsins hafa verið varfærnar. Vel heppnað markaðsátak skilar langtum fleiri ferðamönnum en vonir voru um, jafnt að vetri sem sumri, á háönn og lágönn ferðaþjónustunnar. Í nóvember og desember í fyrra og reyndar líka í nýliðnum janúar komu 30% fleiri ferðamenn til Íslands en í sömu mánuðum árið áður. Í ljósi þessa, og ef fram heldur sem horfir, má ætla að fjöldi erlendra ferðamanna til Íslands árið 2020 verði nær 2 milljónum en þeirri ríflega 1 milljón sem áður var spáð. Ísland er sannarlega komið á kortið.

Vert er í þessu efni að spyrja um ástand og getu helstu ferðamannastaða Íslands til að taka við fleiri ferðamönnum. Eru þeir þegar komnir að þolmörkum? Svarið er afdráttarlaust í mörgum tilvikum: Já, Landmannalaugar eru ofsetnar fjölmarga daga yfir hásumarið; já, Þórsmörk er uppseld margar vikur á ári; já, Hveravellir hafa ekki undan á háannatíma, þar klárast drykkjarhæft vatn þegar mest lætur.

Hvað er til ráða? Hvernig verndum við landið? Hvernig búum við það undir þá breiðu stoð sem ferðaþjónusta er að verða í atvinnulífi og efnahag landsmanna?

Hér þurfa stjórnvöld að marka stefnu í góðri sátt og samvinnu við atvinnugreinina sjálfa, sveitarfélög og félagasamtök sem láta sig náttúruna varða. Gleymum því ekki að 90% erlendra ferðamanna sem leggja leið sína til Íslands koma fyrst og síðast vegna náttúrunnar sem er einstæð en líka viðkvæm.

Ég tel að hér þurfi að huga að að minnsta kosti að tíu þáttum:

1. Auka þarf fjármagn enn frekar til uppbyggingar á eftirsóttustu ferðamannastöðunum. Þar hafa stjórnvöld tekið sig rækilega á síðustu missirin en betur má ef duga skal.

2. Nær 98% erlendra ferðamanna sem koma til Íslands lenda í Keflavík. Rannsóknir sýna að ferðafólk fer ekki langt út fyrir lendingarstaðinn. Því þarf að fjölga áhugaverðum ferðaleiðum og ferðastöðum sem næst aðalflugvelli landsins til að dreifa þar álaginu.

3. Efla þarf afþreyingarkosti ferðaþjónustunnar og hægja með því á ferðum fólks. Því fjölbreyttari upplifun, því metnaðarfyllri skoðunarstaðir og því faglegri afþreying, þeim mun meira fæst út úr hverjum ferðamanni og þeir dreifa sér betur yfir afmörkuð svæði.

4. Fjölga þarf gistiplássum að mun og huga þarf einkum að fjölbreyttri uppbyggingu í sátt við sveitarfélög og náttúru.

5. Huga þarf að gjaldtöku og velja þar á milli kosta. Náttúrupassa við komu til landsins eða valin gjaldhlið á ákveðnum stöðum. Ísland er ekki ókeypis.

6. Dreifa verður ferðafólki betur yfir landið. Fjárfesting í ferðaþjónustu er víða vannýtt en hins vegar fullnýtt annars staðar. Hér taka rannsóknir af tvímæli. Yfir 92% þeirra erlendu ferðamanna sem lenda á Akureyri dvelja aðeins á Norðurlandi. Aðeins 6% þeirra sem lenda í Keflavík fara norður í land. Þeir sem lenda í Keflavík dvelja að meðaltali 1,8 nætur á Norðurlandi. Þeir sem lenda á Akureyri dvelja að meðaltali 7,8 nætur á Norðurlandi. Við eigum fleiri alþjóðaflugvelli en Keflavík. Notum þá.

7. Dreifa verður ferðafólki betur yfir árið. Þar hefur okkur orðið ágengt en horfum til Finna. Þeim hefur tekist á 20 árum að fá 60% sinna erlendu gesta til að koma utan sumartímans.

8. Bæta þarf samkeppnishæfni greinarinnar og horfa til þess sem best gerist í nágrannalöndum, einfalda skattkerfi og efla skattskil.

9. Auka verður menntunarmöguleika í ferðaþjónustu en henni stafar ógn af þeirri láglaunaímynd sem hún hefur á sér.

10. Aukum rannsókn á fé til greinarinnar. Ferðaþjónusta skapar nær 20% af tekjum þjóðarinnar. Hefðbundnar greinar landbúnaðar og sjávarútvegs njóta yfir 90% af opinberu rannsóknafé. Ferðaþjónusta fær um 1%. (Forseti hringir.) Augljóst er hvorum megin fjölgun starfa verður. Augljóst er hvaða atvinnugrein er að sækja hraðast fram á Íslandi. (Forseti hringir.) Stjórnvöld verða að starfa í samræmi við þann veruleika.