141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

dómstólar o.fl.

12. mál
[16:52]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er mikið fagnaðarefni að við samþykkt þessa frumvarps verði tekin upp sú nýskipan um meðferð endurupptöku mála sem dæmd hafa verið í Hæstarétti að það verði ekki lengur Hæstiréttur sjálfur eða þeir dómarar sem hafa komið áður að málum sem fjalli um slíkar beiðnir. Á sama tíma verða niðurstöður sérstakrar óháðrar nefndar sem um slík mál fjallar gerðar opinberar. Það er mikilvæg réttarbót í þessu fólgin.

Þetta er líka gott dæmi um góða samvinnu í þinginu. Hér erum við að samþykkja þingmannafrumvarp sem margir hafa komið að í gegnum tvö þing. Ég þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir góða vinnu við frumvarpið sem var unnið í nánu samráði við réttarfarsnefnd og sérstaklega formann hennar, Eirík Tómasson, og hæstv. innanríkisráðherra. Ég tel þetta mikilvægt mál og góða réttarbót.