143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[15:23]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessi svör og upprifjun á samskiptum við landeigendur á þessu svæði. Hann nefnir að þess hafi verið óskað að landeigendur mundu falla frá kröfum um gjaldtöku.

Lögum samkvæmt hafa þeir hins vegar enga heimild til slíkrar kröfu þannig að þeir standa ekki í neinni réttarstöðu hvað þetta snertir. Ég velti fyrir mér hvað menn mundu gera á Laugaveginum eða við Hverfisgötu ef einstaklingar stilltu sér þar upp í vegi fyrir bílaumferðinni og krefðu menn um gjald. Ég hygg að þá yrði kallað á lögregluna. Hvers vegna ætlar ríkið að halda áfram að sýna þessi linkulegu viðbrögð? Hvers vegna er lögreglan ekki látin stöðva þá lögleysu sem þarna fer fram? Það er gengið að einstaklingum sem koma inn á svæðið og þeir krafðir um 600 kr. Samt eru allir sammála um lögleysuna.

Hvers vegna gerir ríkisstjórnin ekki neitt? Hvers vegna gerir framkvæmdarvaldið (Forseti hringir.) ekki neitt til að verja fólk fyrir þessu löglausa áreiti?