143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

húsnæðismál Listaháskóla Íslands.

421. mál
[18:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ber að skilja það svo að þá hafi verið bókað með afgerandi hætti af hálfu ríkisstjórnar að búið væri að taka ákvörðun um að gefa Sölvhólsgötureitinn frá sér fyrir stjórnarráðsbygginguna? Ég er ekki viss um að svo sé. Aftur á móti er allt annað mál að það sé skoðað hvernig þessir möguleikar gætu litið út áður en við komumst að slíkri ákvörðun. Það er þó ekki sjálfgefið að slík ákvörðun yrði tekin jafnvel þótt það kæmi vel út fyrir Listaháskólann að þarna yrði byggt. Ég vil bara undirstrika það. Það er þá sérstök ákvörðun í sjálfu sér.

Hvað varðar sambúð Listaháskólans við Stjórnarráðið væri það áhugaverð og athyglisverð nálgun. Ég veit ekki hversu gott Listaháskólinn hefði af því en ég er nokkuð klár á því og viss um að Stjórnarráðið hefði mjög gott af því.

Hvað varðar persónulega afstöðu mína vil ég frekar bíða eftir því að fá niðurstöðu þessarar vinnu til að leggja grunn að slíkri skoðun. Vandinn er sá að vinna fór af stað án þess að til hennar hefði verið ætlað fjármagn. Síðan stöndum við frammi fyrir því að það kostar einar 4 milljónir að fá fram kostnaðarmat eins og talið er þurfa til að geta rökstutt niðurstöðu í þessu máli. Þá þarf að reyna að afla þeirra fjármuna, væntanlega í gegnum fjárlög. Ég sé ekki aðra leið til að gera það. Það hefði verið heppilegt ef við hefðum séð fyrir þegar ákvörðun um nefndina var tekin að til þessara útgjalda mundi koma.

Það er ekki hægt að sjá allt fyrir en þessi staða er uppi og þessi er kostnaðurinn og hann er sannarlega töluvert hár.