144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[14:49]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í kjölfar hruns fjármálakerfisins gerðu lífeyrissjóðirnir úttekt á starfsemi sinni. Í henni kom fram að það þyrfti að fara í rækilega endurskoðun á 36. gr. laga um lífeyrissjóði sem varðar fjárfestingarheimildir þeirra. Það er mjög bagalegt að hér sé verið að gera breytingar á þeirri grein án þess að sú endurskoðun hafi farið fram en þetta mál hefur verið vel unnið í nefndinni. Það hafa verið gerðar breytingar í átt til varfærni og ég hef því tekið ákvörðun um að styðja þetta frumvarp, enda held ég að markmiðið sé gott, að gefa lífeyrissjóðunum auknar fjárfestingarheimildir sem þeir eru í mikilli þörf fyrir og það í litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem vantar fjármagn inn í starfsemi sína.

Ég er með ákveðinn fyrirvara en ég tel, eftir að hafa fengið upplýsingar um vinnslu á málinu, að það sé eðlilegt að styðja það.