144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

um fundarstjórn.

[15:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er augljós ágalli á því frumvarpi sem hér á að ræða á eftir, að það er vanbúið hvað varðar greiningu á þeim breytingum sem gerðar voru á fyrirkomulagi þróunarsamvinnu með lögunum frá 2008, og ekki hefur farið fram sérstök úttekt Ríkisendurskoðunar á þýðingu þeirra breytinga og því hvaða árangri þær hafa skilað. Þegar af þeirri ástæðu er nú ljóst að eðlilegt er að biðja Ríkisendurskoðun um alvöruúttekt áður en haldið er áfram. Það er svolítið sérkennilegt að breyta stjórnskipulagi þegar ekki er búið að gera úttekt á hvort síðustu breytingar hafi í reynd virkað til góðs eða ills. Þess vegna finnst mér einboðið að fresta þessari umræðu.

Ég ítreka líka að hér liggur fyrir fullbúið tilbúið þingmál sem eðlilegt er að ræða, sem formenn fjögurra flokka af sex á Alþingi hafa lagt fram og væri miklu eðlilegra að setja hér á dagskrá í dag.